Viðbúið að allt að 100 manns gisti í fjöldahjálparmiðstöðvum í nótt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2023 21:19 • Uppfært 27. mar 2023 21:22
Um 500 manns hafa í dag þurft að yfirgefa heimili sín á Eskifirði, Seyðisfirði og í Neskaupstað vegna snjóflóðahættu. Allar rýmingar verða í gildi yfir nóttina. Viðbúið er að allt að fimmtungur þeirra þurfi að gista í fjöldahjálparmiðstöðvum.
Fundahöldum viðbragðsaðila lauk um kvöldmatarleytið. Eftir það var ljóst endanlega ljóst að engum rýmingum yrði aflétt í kvöld. Skyggni hefur verið afleitt í dag og ekki sést til fjalla þótt reynt hafi verið að afla upplýsinga, meðal annars með flygildum. Áfram verður haldið þegar birtir í fyrramálið. Heldur létti til þegar líða tók á daginn og engin veðurviðvörun er lengur í gildi.
Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, þurftu alls um 500 manns að rýma heimili sín í dag. Flestir í Neskaupstað, yfir 360, um 70 á Eskifirði og 60 á Seyðisfirði.
Ágætlega hefur gengið að finna gistingu fyrir fólk en þó er viðbúið að um 100 manns þurfi að gista í fjöldahjálparmiðstöðvunum í nótt, flestir í Neskaupstað. Dýnur og annar búnaður til að taka á móti fólki er þar til reiðu.
Neyðarstigi var aflétt um klukkan sjö í kvöld og fært niður á hættustig. Er það gert þegar komin er fullnægjandi yfirsýn á atburð, í þessu snjóflóð sem féllu á íbúðarhús í Neskaupstað og sumarhús á Seyðisfirði í morgun.
Björgunarsveitarfólk flaug í hádeginu frá Reykjavík til Egilsstaða. Þorri þess fólks verður þar í nótt, enda alltaf hugsunin að koma fólkinu nær þannig viðbragðstími yrði styttri ef á þyrfti að halda. Flestar leiðir sunnan Egilsstaða hafa verið lokaðar, þar á meðan Fagridalur. Vegagerðin býður átekta með að ryðja hann en þar eru ekki síst áhyggjur af snjóflóðum. Þess utan eru austfirskir viðbragðsaðilar til taks, meðal annars snjóflóðaleitarhundar á Reyðarfirði og Breiðdalsvík.
Þór tekur vistir og fólk á Seyðisfirði
Hluti hópsins er á leið til Seyðisfjarðar á móts við varðskipið Þór sem væntanlegt er þangað klukkan 21:30. Skipið tekur þar vistir og björgunarsveitarfólk, lögregluþjóna og sjúkraflutningafólk. Upphaflega stóð til að fólkið færi um borð á Vopnafirði en Vegagerðin afréð að senda snjóflutningstæki með hópnum yfir Fjarðarheiði.
Þaðan fer skipið áfram til Norðfjarðar og Eskifjarðar. Hluti fólksins fer frá borði meðan aðrir gista um borð. Ekki er ljóst hvenær skipið kemur þangað.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti í Neskaupstað á sjöunda tímanum. Hún flutti þangað lækni, tvo lögregluþjóna og tvo einstaklinga frá Rauða krossinum. Þyrlan flaug síðan aftur til Egilsstaða með ólétta konu. Konunni var flogið áfram til Akureyrar með sjúkraflugvél. Þyrluáhöfnin gistir á Egilsstöðum í kvöld þannig að þyrlan verður til taks eystra.
Fulltrúar Náttúruhamfaratryggingar Íslands eru væntanlegir austur í fyrramálið og vonast til að vera í Egilsbúð frá 11-13.
Myndir: Landsbjörg