Viðvörun vegna hláku orðin appelsínugul

Veðurstofan hækkaði í morgun viðvörun vegna hláku á Austfjörðum í appelsínugula auk þess að lengja í viðvörunum fyrir svæðið. Hlána virðist fyrr á Suðurfjörðum en reiknað var með. Á norðursvæðinu er búist við snjókomu út daginn.

Í gildi núna eru tvær appelsínugular viðvaranir. Annars vegar vegna snjókomu til miðnættis. Hins vegar vegna asahláku á sunnanverðum Austfjörðum fram til miðnættis en eftir það á öllu svæðinu til klukkan níu í fyrramálið. Þá tekur við gul viðvörun fyrir allt svæðið til miðnættis annað kvöld vegna hláku.

Ákvarðanir um frekari viðvaranir hafa ekki verið teknar enn en veðurspár gera ráð fyrir talsverðri hláku þar til líður á laugardag.

„Það er talsverð úrkoma á Austfjörðum núna. Hún fellur fyrst og fremst sem rigning á sunnanverðum fjörðunum en norðan til snjóar enn, að minnsta kosti uppi í hlíðum. Mögulega er slydda við sjávarmál,“ segir Einar Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Mörkin milli norðurs og suðurs í þessum úrkomubeltum eru í kringum Eskifjörð. Eiríkur segir að snjóa muni á norðanverðu svæðinu út daginn í dag. Um miðnætti taki að hlýna og þá breytist úrkoman í rigningu. Væntanlega minnkar úrkoman aðeins í nótt, en það verður varla mikið.

Í morgun bárust fregnir af því að byrjað væri að flæða yfir veg í Berufirði. „Það sýndi að farið væri að hlána fyrr og meira en við áttum von á. Þess vegna flýttum við hlákuviðvöruninni og hækkuðum því mat okkar er að afleiðingar hlákunnar kunni að verða meiri en við áttum von á á í gær,“ útskýrir Eiríkur.

Í yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar segir að óvenjulegar aðstæður á Austfjörðum, þar sem mikið er af nýföllnum snjó, skapi hættu á blautum snjóflóðum úr neðri hluta hlíða þegar hlýni og rigni. Þegar á líði sé hætta á krapaflóðum þegar snjór blotnar og mettast.

Erfitt sé að spá um hvar krapaflóð falli en þau byrji yfirleitt í vatnsfarvegum. Þess vegna þurfi fólk að sýna aðgát nærri farvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum með sögu um krapaflóð eru hvattir til þess að dvelja ekki í kjallaraherbergjum með gluggum sem vísa upp í hlíðina á meðan rigningin gengur yfir.

Mynd: Landsbjörg


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.