Skip to main content

Víkingur kom með fyrsta loðnufarminn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. des 2022 13:14Uppfært 15. des 2022 13:42

Víkingur AK kom með fyrsta loðnufarminn á þessari vertíð þegar skipið kom með um 700 tonn að landi á Vopnafirði á þriðjudagsmorgunn. Skip eru enn að veiðum norður af landinu.


„Þetta leit vel út, fínasta loðna. Við frystum megnið af henni,“ segir Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri Brims á Vopnafirði.

Í gær kom síðan annar farmurinn þegar Beitir landaði í Neskaupstað rúmum 1.300 tonnum. Sá fiskur varð sá fyrsti til að fara í gegnum nýja próteinverksmiðju Síldarvinnslunnar. Barði, skip Síldarvinnslunnar og Venus frá Brim eru á miðunum núna.

Magnús segir Venus vera kominn með rúm 800 tonn og vera væntanlegan til Vopnafjarðar í byrjun helgarinnar, eftir hvernig veiðist í dag.

Síðan verður gert jólahlé á bæði veiðum og vinnslu. Væntanlega byrja skip Brims á kolmunnaveiðum eftir áramót en vonir eru bundnar við að rannsóknaleiðangur Hafrannsóknastofnunar um miðjan janúar skili auknum loðnukvóta.