„Vildum láta gott af okkur leiða“

„Hugmyndin var nú bara að láta gott af okkur leiða og fræða gesti og gangandi um það mikla og fjölskrúðuga fuglalíf sem hér finnst,“ segir Áslaug Lárusdóttir, í Rótarýklúbbi Neskaupstaðar.

Klúbburinn hefur látið hanna, framleiða, og koma fyrir tveimur fræðsluskiltum um fuglalíf meðfram strönd bæjarins en á þeim skiltum má finna ýmsar upplýsingar um það fuglalíf sem finnst í firðinum. Ýmis fróðleikur um hverja og eina tegund og með því að skanna kóða sem á skiltunum finnast má bæði heyra söng hvers fugls og fræðast enn meira um hverja tegund fyrir sig.

Hugmyndin að þessu framtaki er gömul innan klúbbsins að sögn Áslaugar og var það Smári Björgvinsson sem viðraði hana upphaflega en með nýlegum framlögum frá Samvinnufélagi útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) og Fjarðabyggð tókst að koma hugmyndinni í framkvæmd.

„Við erum auðvitað klúbbur hér í Neskaupstað og höfum því ekki skoðað að setja slíkt upp annars staðar en það kemur hins vegar til greina að gera þriðja skiltið við tækifæri enda strandlengjan löng. Kannski verður þetta til þess að aðrir klúbbar taki upp á þessu líka.“

Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN , Jón Björn Hákonarsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar og þau Snorri Styrkársson, Vilborg Stefánsdóttir og Áslaug Lárusdóttir frá Rótarýklúbbnum við eitt skiltanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.