Skip to main content

Vilja aðgerðir Fjarðabyggðar vegna Melbæjar á Eskifirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jún 2022 11:41Uppfært 08. jún 2022 11:51

„Okkur hefur þótt gott að vera í Melbæ og að við viljum vera þar áfram ef gerðar væru lagfæringar sem þarf til að húsnæðið væri í góðu lagi fyrir okkur.“

Svo segir meðal annars í nýlegri áskorun stjórnar Eldriborgarafélags Eskifjarðar til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar en húsakostur félagsins, Melbær, er orðið svo bágborinn að það er nánast orðið ónothæft undir starfsemi félagsins og jafnvel hætta á að starfsemin lognist útaf verði ekkert að gert. Kallað er eftir aðgerðum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar sem fyrst.

Félagið ítrekar í bréfi til Fjarðabyggðar að brýnt sé orðið að finna lausn en félagið hefur margoft áður óskað aðstoðar bæjarfélagsins vegna þessa en án árangurs.

Í Melbæ hefur verið starfsemi síðan 1969 en viðhaldi var löngum ábótavant og nú telur Eldriborgarafélagið að til þurfi 20 til 30 milljónir króna til endurbóta til að koma húsnæðinu í viðunandi horf. Það sé engu að síður mun lægri upphæð en þurfi til lagfæringa á skrifstofu Hraðfrystihússins en sú hugmynd var viðruð af hálfu bæjarstjórnar fyrir nokkru sem kjörið félagsheimili fyrir félagið. Töluverðar viðgerðir þurfa þó að fara fram á því húsnæði og metur Eldriborgarafélagið að sá kostnaður sé vart undir 80 milljónum króna eða rúmlega þrefalt dýrari kostur en endurbætur á Melbæ. Þá hefur bæjarfélagið einnig bent á Valhöll sem hugsanlegan kost undir starfsemi Eldriborgarafélagsins en félagsmönnum hugnast það illa. Félagsmenn vilji vera áfram í Melbæ.

Eldri borgarar á Eskifirði hafa um rúmlega tíu ára skeið óskað aðstoðar Fjarðabyggðar vegna viðhalds á Melbæ en lítið þokast.