Skip to main content

Vilja könnun á umfangi tjóns vegna hreindýra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. jan 2023 10:11Uppfært 10. jan 2023 10:13

„Hugmyndin er að fá úr því skorið hversu stórt vandamálið er í raun og veru og þess vegna óskum við eftir að stofnunin kanni málið,“ segir Vilhjálmur Jónsson, formaður heimastjórnar Fljótsdalshéraðs.

Heimastjórnin vill að sveitarstjórn Múlaþings fari þess á leit við Umhverfisstofnun (UST) að kannað verði hversu margir bændur og eða landeigendur verða fyrir búsifjum vegna ágangs hreindýra í löndum þeirra hér austanlands. Ekkert formlegt eftirlit er með slíku en Vilhjálmur segir slíkum vandamálum vissulega til að dreifa þó umfangið sé alls óljóst.

„Það er þekkt að bændur og landeigendur verða stundum fyrir tjóni vegna þessara ágætu dýra enda sækja þau gjarnan í lendur bænda hvort sem það eru skógarbændur eða hefðbundnir bændur. Hreindýrin gjörn á að tæta upp grassvörð til að komast í ræturnar og ekki síður ef þau komast í korn hjá kornbændum. Það væri ráð að okkar viti að gera á þessu úttekt.“

Heimastjórnin var sammála um að óska eftir formlegri úttekt og í kjölfarið mætti setja á stofn einhvers konar kerfi til að bæta það tjón sem hreindýrin valda á löndum bænda ef vandamálið reynist sannarlega til staðar.