
Vilja ljúka uppbyggingu á Faktorshúsinu sem fyrst
Rúmt ár er síðan sérstakur starfshópur var settur á laggirnar til að koma með tillögur að framtíðarnýtingu Faktorshússins á Djúpavogi en nú hefur Múlaþing óskað eftir samstarfsaðilum til að ljúka endurbyggingu hússins annars vegar og hefði hug á starfsemi í húsinu hins vegar.
Gauti Jóhannesson, fulltrúi sveitarstjóra á Djúpavogi, segir nokkurra vikna vinnu eftir innandyra svo vel sé en vinnu er að mestu lokið utanhúss. Þá skal ljúka frágangi við lóð við húsið með vorinu. Faktorshúsið er ein merkasta bygging á Djúpavogi og þótt víðar væri leitað en það var byggt árið 1848.
„Það kemur ýmislegt til greina í húsinu og yrði samkomulagsatriði við áhugasama en við horfum til þess fyrst og frest að fá líf í þetta merka og fallega hús og helst að þar yrði dagleg starfsemi hvort sem þar yrði um einhvers konar þjónustu að ræða eða skrifstofur.“
Gauti segir um fyrsta áfanga verkefnisins að ræða. Fyrst að ljúka að mestu vinnu innandyra en það færi svo eftir eðli þeirrar starfsemi sem í húsinu yrði hvernig lokafrágangi yrði hagað.
Faktorshúsið og Langabúð eru tvö af merkustu byggingum á Djúpavogi og horft er til þess að gæða húsin sem mestu lífi til framtíðar.