Vilja stórauka fræðslu um hinsegin málefni í Múlaþingi
Með tilliti til að tilverurétti hinsegin fólks er ítrekað ógnað kallar ungmennaráð Múlaþings eftir því að fræðsla um hinsegin málefni verði stóraukin í sveitarfélaginu.
Var bókað um þetta sérstaklega á síðasta fundi ráðsins með öllum greiddum atkvæðum en ungmennaráðið samanstendur af unglingum yngri en 18 ára sem vilja taka virkan þátt í mótun samfélagsins og hafa áhrif á sitt nærumhverfi.
Töluvert hefur borið á auknu áreiti í garð hinsegin fólks síðustu misserin og það bæði hér á Íslandi sem og víða erlendis. Með það í huga telur ungmennaráðið ljóst að auka þurfi fræðslu enn frekar og þá ekki síst gagnvart starfsfólki og nemendum grunn- og leikskóla. Þá væri líka ráð að auka fræðslu hjá foreldum og forsjáraðilum. Aðeins þannig verði Múlaþing leiðandi í jafnréttismálum og sporni fast við óæskulegri orðræðu og fordómum.