Skip to main content

Vilja veigamiklar skipulagsbreytingar á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. des 2022 13:09Uppfært 06. des 2022 13:24

„Okkur langar að gera hér drjúgar skipulagsbreytingar sem gagnast fyrirtækjunum, íbúum og gestum bæjarins langt fram í tímann og þessar hugmyndir eru fyrstu skrefin í þá átt,“ segir Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti meirihluta Framsóknar og óháðra á Vopnafirði.

Meirihlutinn lagði fram fyrir nokkru veigamiklar tillögur að skipulagsbreytingum í bænum með það að markmiði að bæta margt það sem hópurinn telur miður fara í dag en Axel tekur þó skýrt fram að hér sé verið að horfa mörg ár fram í tímann og tillögurnar gæti tekið breytingum þegar fram líða stundir.

„Breytingarnar taka á mörgum hlutum. Fyrir það fyrsta fýsir okkur að taka og skipuleggja eina góða lóð undir hótel. Ekkert slíkt er í skipulaginu nú en miðað við að gert er ráð fyrir auknum ferðamannafjöldi hingað austur með tilkomu til dæmis flugfélagsins Condor er ekki vanþörf á. Eina starfandi hótel bæjarsins er fullbókað langt fram í tímann og þó enginn aðili hafi beint forvitnast um slíka lóð þá teljum við vænlegra að gera ráð fyrir slíku í skipulaginu og vera þá tilbúin þegar og ef það gerist.“

Sama gildir um hugmyndir að nýju tjaldsvæði segir Axel en núverandi tjaldsvæði er allt of lítið til að anna þeim gestafjölda sem sækir Vopnafjörð heim auk þess sem þjónusta þar er takmörkuð.

„Það illgerlegt að stækka núverandi svæði því fyrir ofan eru bara mýrar og klettar auk þess sem umferð um það svæði fer framhjá skólum sem við teljum ekki heppilegt. Við teljum nær að setja upp nýtt svæði við Merkistún með allri þjónustu sem til dæmis húsbílaeigendur krefjast í dag sem er rafmagn, vatn og klósettaðstaða meðal annars. Við höfum þegar vitnað að þurfa beinlínis að vísa gestum frá bænum vegna plássleysis og það gengur einfaldlega ekki upp ef við ætlum að freista ferðafólks.“

Meirihlutinn vill líka breyta hafnarsvæðinu til betri vegar að þeirra mati. Þar helst að gera það svæði að einu fyrir alla þá aðila sem sinna hafnsækinni starfsemi.

„Ef það væri hægt að koma allri slíkri starfsemi á einn og sama staðinn yrði það til bóta fyrir svæðið og ekki síður bæjarlífið því þá opnast möguleikar að gera miðbæinn okkar meira aðlaðandi og lifandi en nú er. Hugmyndin er að láta fjarlægja Ásbryggjuna og gera þar landfyllingu. Þessu tengjast líka hugmyndir Brims um frekari uppbyggingu á staðnum og því kjörinn tími til að skipuleggja hafnarsvæðið til framtíðar.“

Þá vill meirihlutinn koma fyrir vélhjólaíþróttabraut fyrir börn ofan við núverandi urðunarstað. Axel segir mikinn fjölda barna í bænum sem eigi slík hjól en engin tiltekin svæði til leiks. Hann viðurkennir að umrætt svæði sé nálægt hestamannasvæði Glófaxa en bendir á að fá önnur svæði komi til greina þar sem áhrif verða ekki á hesta og stutt sé að fara.

„Þarna er ekki um torfærusvæði að ræða eins og sumir halda heldur eingöngu hjólasvæði fyrir börn á smærri hjólum og vitaskuld yrði slíkt unnið í góðri samvinnu við alla aðila.“

Minnihlutinn telur mörg önnur mál brýnni

Minnihlutinn í Vopnafjarðarlistanum hefur gert margháttaðar athugasemdir við framkomnar tillögur meirihlutans en þar líka tekið undir þörf á mörgu því sem fram kemur í máli meirihlutans. Vélhjólasvæði fyrir börn sé ekki neikvætt en gæta þarf vel að því að umferð þar trufli ekki hestamenn í nágrenninu. Sömuleiðis sé það vel að huga að nýju tjaldsvæði innan bæjarmarkanna en hjá sveitarfélagi með takmarkaða fjármuni sé það ekki forgangsmál að svo stöddu þegar margt annað brýnna sitji á hakanum. Hlutir eins framkvæmdir við skólalóð, lagfæringar á götum bæjarins, skólp- og vatnsveitumál og annað slíkt sem komið sé á tíma.

Vopnafjarðarlistinn fagnar einnig allri umræðu um framtíð hafnar bæjarins en geldur varhug við svo ítarlegum breytingum á hafnarsvæðinu án þess að nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar á áhrifum svo mikilla breytinga.

Samkvæmt teikningu er það lagt til að Ásgarðurinn verði fjarlægður. Vopnafjarðarlistinn fagnar allri umræðu um framtíð hafnarinnar en gagnrýnir að svo viðamiklar breytingar á höfninni séu lagðar til án þess að farið hafi fram skoðun á því hvaða áhrif breytingin muni hafa á öldugang og sjólag í höfninni – og þá sérstaklega í smábátahöfn. Að hefja þessa skipulagsvinnu án nauðsynlegra athugana er bæði óskynsamlegt og ábyrgðarlaust.“

Samþykkt var af hálfu hreppsráðs Vopnafjarðar að senda tillögur meirihlutans áfram til umhverfis- og framkvæmdaráðs til umræðu og afgreiðslu. Það ráð hefur tekið málið fyrir og vísað til skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins. Minnisblað hans varðandi tillögurnar verða á næstunni lagðar fyrir umhverfis- og framkvæmdanefnd til frekari umfjöllunar.

Hafnarsvæði Vopnafjarðar gæti tekið töluverðum breytingum frá því sem nú er ef tillögur meirihluta Framsóknar og óháðra ganga í gegn.