Skip to main content

„Vindorkuáætlanir ríkisvaldsins ekki nauðsynleg forsenda vindorkuvera“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jan 2023 16:35Uppfært 12. jan 2023 16:52

„Orkuverkefni taka mörg ár í undirbúningi og það sem verður gert innan Klaustursels næstu árin er að rannsaka vindaðstæður nánar og meta umhverfisáhrif verkefnisins. Enn er býsna langt í land með að unnt sé að meta hvort eða hvenær vindmyllur kunna að rísa þar,“ segir Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Iceland.

Austurfrétt leitaði álits Ketils á þeirri ákvörðun sveitarstjórnar Múlaþings að bíða með að gefa grænt ljós á byggingu vindorkugarða í sveitarfélaginu á meðan ekki liggi ljóst fyrir hver stefna ríkisins varðandi vindorkumál verður til framtíðar.

Zephyr Iceland, dótturfyrirtæki  Zephyr sem samanstendur af þremur norskum vatnsaflsfyrirtækjum, er eitt þeirra fyrirtækja sem kanna hagkvæmni þess að reisa vindorkugarða í landi Múlaþings. Nánar tiltekið allt að eitt hundrað vindmyllur í landi Klaustursels skammt frá ferðamannasvæðinu við Stuðlagil.

Ketill vill ekki tjá sig beint um ákvörðun sveitarstjórnarmanna Múlaþings en bendir á að sveitarfélögum er í dag í sjálfsvald sett að huga að skipulagi og leyfisveitingu vindorkuverkefna í samræmi við gildandi lög.

„Það er með öðrum orðum ekki svo að sérstakar „vindorkuáætlanir“ af hálfu ríkisvaldsins í Reykjavík séu nauðsynleg forsenda slíkra verkefna. En það liggur fyrir að núverandi ríkisstjórn hefur þá stefnu að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Þess vegna höfum við væntingar um að stutt sé í lagabreytingar sem geti hraðað vindorkuverkefnum miðað við það sem leiðir af núgildandi lögum. Enda er raforkukerfið svo til fullnýtt og mikil þörf á að raforkuframboð aukist.“

Ketill bendir ennfremur á að nokkur fyrirtæki séu að skoða möguleika á framleiðslu rafeldsneytis á Norðausturlandi. Hann vill meina að efnahagsleg áhrif svæðisins af slíkri framleiðslu séu á pari við byggingu álvers Alcoa í Reyðarfirði auk Kárahnjúkavirkjunar sjálfrar.

„Þá ótalin þjóðhagslega jákvæð áhrif þess að innlent eldsneyti verði framleitt hér, sem leysi innflutt eldsneyti af hólmi. Hvort af þessu verður á enn eftir að koma í ljós, en full ástæða er til að minna á það hversu áhugaverð tækifæri þarna eru á ferð fyrir Norðausturland.“

Loftmynd úr ranni Map.is af stórum hluta lands Klaustursels í Efri-Jökuldal þar sem Zephyr Iceland hefur hug á að reisa stóran vindorkugarð í framtíðinni. Stutt er í ferðamannaperluna Stuðlagil frá því svæði. Skjáskot Map.is