Skip to main content

Vinna álit gegn sameiningu við önnur sveitarfélög

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. feb 2023 10:40Uppfært 16. feb 2023 10:41

Hafin hefur verið vinna af hálfu Fljótsdalshrepps við að undirbúa drög að áliti gegn því að sveitarfélagið sameinist öðrum slíkum.

Samkvæmt breytingum sem gerðar voru á sveitarstjórnarlögum fyrir nokkru skulu sveitarfélög landsins með færri en 250 íbúa annaðhvort hefja formlegar sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög ellegar færa rök fyrir getu sinni til að sinna lögbundnum verkefnum sínum með sómasamlegum hætti.

Krafa var gerð um að slíkt álit lægi fyrir innan árs frá almennum kosningum til sveitarstjórna og á síðasta fundi sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps var sveitarstjóra falið að hefja þessa vinnu enda hefur hreppurinn hvorki hafið neinar viðræður um sameiningu né standi neitt slíkt til. Fyrirhugað er að drögin liggi fyrir í aprílmánuði.

Áður en sveitarstjórnarlögunum var breytt 2021 sendi Fljótsdalshreppur umsögn sína vegna þess þar sem skýrt kom fram að enginn vilji væri fyrir nokkurs konar sameiningu. Þar meðal annars tíundað að tekjur sveitarfélagsins af Kárahnjúkavirkjun næmu tveimur milljónum króna á hvern íbúa og þeir fjármunir væru notaðir til að bæta aðstöðu og þjónustu í Fljótsdal. Hvergi hefði verið bent á hvernig þjónustan myndi batna með sameiningu við annað stærra sveitarfélag.