Vinnsla hafin að nýju á Seyðisfirði
Vinnsla er aftur hafin í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar (SVN) á Seyðisfirði en þar var landað um 1800 tonnum af síld úr Smugunni um miðnættið.
Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri, er afar sáttur við að fá aflann í hús enda ekkert verið unnið í verksmiðjunni um sex mánaða skeið vegna viðhalds og framkvæmda ýmis konar. Hann segir hráefnisvinnslu nú góðan undirbúning fyrir kolmunnatörn sem hefst á nýju ári.
Á meðal síld kemur á land á Seyðisfirði er loðnuvinnsla í fullum gangi hjá SVN í Neskaupstað að því er fram kemur á vef fyrirtækisins. Í gær kom Barði NK með þúsund tonn til hafnar og von er á rúmlega sex hundruð tonnum til viðbótar þegar grænlenska skipið Polar Ammassak landar þar síðdegis.
Nokkur bræla hefur verið víða á miðum síðustu daga en jólafrí er framundan hjá áhöfnum flestra skipa og þar á meðal áhöfninni á Polar Ammassak hvers skipstjóri er Geir Zoёga.
„Undir lokin var veður farið að hamla veiðum og við erum á landleið í bölvaðri brælu. Nú er jólafrí framundan og það er gott til þess að hugsa.“
Keyrsla hafin á ný á Seyðisfirði eftir framkvæmdir sem hófust í sumar sem leið. Mynd SVN