Skip to main content

Vöðvasullur fannst á þremur bæjum á Héraði í vetur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. feb 2023 10:32Uppfært 15. feb 2023 11:13

„Þetta er alls ekki hættulegt mönnum í neinu tilliti en er til mikils vansa í afurðunum, veldur skemmdum á kjötinu og hugsanlega óþægindum fyrir búféð sjálft,“ segir Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir hjá Matvælastofnun.

Eftirlitsaðilar frá stofnuninni hafa í vetur orðið varir við vöðvasull í sauðfé á allnokkrum bæjum í landinu og þar af á einum þremur bæjum hér austanlands á Héraði. Vöðvasullur er lirfustig bandorms sem lifir í hundum og refum hérlendis en gjarnan er talað um vöðvasullsbandorminn sem litla bróður sullveikibandormsins en sá síðarnefndi er töluvert skæðari en hefur góðu heilli ekki fundist hérlendis síðan 1979.

Hefur þetta vakið upp áhyggjur að sóttvörnum sé ekki framfylgt eins og lög gera ráð fyrir en hundaeigendum er skylt að láta ormhreinsa hunda sína á ári hverju sem er eina ráðið gegn slíkum sýkingum.

Ólafur segir að þessa hafi fyrst orðið vart fyrir mörgum árum síðan en hafi legið niðri um nokkurt skeið þangað í vetur þegar jákvæð sýni fundust á allnokkrum stöðum. Ljóst sé að vandamálið sé stigvaxandi en þetta veldur blöðrum í vöðvum og líffærum sauðfjár.

„Síðan fórum við að finna þetta á þessum þremur bæjum þarna fyrir austan. Ástæðan fyrir þessu er að hundar komast í hrámeti sem er sýkt af sullum og þeir dreifa svo eggjum yfir bithaga sauðfjár. Það sem hefur breyst undanfarið er að það virðist vera vaxandi áhugi að fóðra hunda með hrámeti sem merkir að ef hundur kemst aftur í hrámeti eftir bandormahreinsun er hætta á að hringrásin hefjist öll að nýju.“

Ólafur segir dýralækna afar meðvitaða um vöðvasull og leiti slíks í þaula í sláturhúsum en blöðrur í kjöti geti verið erfitt að finna nema vel sé leitað. Algjört lykilatriði sé að hundaeigendur fylgi settum reglum og allir fari undantekningarlaust með hunda sína í hreinsun.

„Þá er og mikilvægt að ganga tryggilega frá sláturúrgangi og að hundar komist ekki í það og ekki fóðra hundana með hrámeti nema það hafi verið fryst í ákveðinn tíma.“

Ólafur átti fundi með heilbrigðisaðilum hér austanlands í vetur þar sem farið var yfir þessi mál og fundirnir góðir að hans sögn. Allir séu meðvitaðir um mikilvægi þess að halda sýkingum í skefjum og helst koma í veg fyrir þær.