Skip to main content

Von á björgunarsveitarfólki á ferð innanbæjar á Eskifirði í dag

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. mar 2023 07:28Uppfært 10. mar 2023 07:48

Til stendur að halda leitinni að Gunnari Svan Björgvinssyni áfram innanbæjar á Eskifirði í dag og um helgina. Íbúar eru beðnir að hafa augun hjá sér á svæðum sem alla jafna eru mannlaus.


Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Lýst var eftir Gunnari á miðvikudag en eftirgrennslan hefur staðið yfir síðan á sunnudag. Gunnar hefur þó ekki sést síðan 24. febrúar, þá við heimili sitt á Eskifirði.

Í upphafi var leitað vísbendinga um ferðir Gunnars, meðal annars með það að markmiði að þrengja leitarsvæðið. Á mánudag, meðan upplýsingar voru enn óljósar, var gengið meðfram fjörum í Eskifirði og leitað í bænum.

Í gærmorgun tók TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar, þátt í leitinni. Farið var yfir Eskifjörð og Reyðarfjörð við ágætis skilyrði. Flugið skilaði þó engum árangri.

Í dag og um helgina stendur til að leita áfram í fjörum og hlíðunum ofan Eskifjarðar. Þá stendur einnig til að leita í bænum sjálfum. Í tilkynningu lögreglunnar eru íbúar því beðnir um að láta sér ekki bregða þótt björgunarsveitarfólk sjáist nærri heimilum þeirra. Þá eru íbúar beðnir um að skoða sitt nærumhverfi, einkum skúra, geymslur og önnur rými sem að öllu jöfnu eru mannlaus.

Gunnar Svan er liðlega fertugur að aldri, grannvaxinn með áberandi sítt og brúnt hár. Öll sem geta gefið upplýsingar um ferðir Gunnars eru vinsamlega beðnir að hafa samband við lögregluna á Austurlandi annaðhvort í síma 444 0600 eða með tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.