Skip to main content

Von á fleira ferðafólki en nokkru sinni fyrr

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2023 09:24Uppfært 21. mar 2023 09:28

Útlit er fyrir að fleira ferðafólk heimsæki Austurland en nokkru sinni fyrr í sumar. Viðbúið er að 110-120 þúsund manns komi með skemmtiferðaskipum.


Þetta kemur fram í fréttaskýringu í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Metár var í komum skemmtiferðaskipa síðasta sumar en nú er búist við 40 þúsund fleiri farþegum. Farþegar Norrænu eru fyrir utan þessa tölu eða starfsfólk skipanna sem kemur í land í dagsleyfum meðan þau liggja við bryggju.

Langflest skipanna koma til Seyðisfjarðar, 115 með um 70 þúsund farþega samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Til Djúpavogs er búist við 60 skipum, álíka mörgum og til Seyðisfjarðar í fyrra. Borgarfjörður tekur á móti 20 minni skipum og Fjarðabyggðarhafnir tíu.

Gangi áform þýska flugfélagsins Condors um vikulegt beint flug milli Egilsstaða og Frankfurt að óskum ferjar það um 1000 manns á mánuði. NiceAir er að skoða möguleikana síðar í haust, til viðbótar við þá ferðamenn sem koma til landsins og síðar fjórðungsins eftir öðrum leiðum.

Ferðaþjónustuaðilar, sem Austurglugginn ræddi við, eru bjartsýnir á að vel takist til við að taka á móti fjöldanum. Aðalheiður Borgþórsdóttir, sem sér um móttökurnar hjá höfnum Múlaþings, segir Seyðfirðingar vana að taka á móti stórum skipum. Áskorun geti þó verið að finna leiðsögumenn, bílstjóra og annað til að tryggja að allt gangi eftir.

Innan Múlaþings hefur lítillega verið rætt um hvort og hvenær eigi að takmarka skipakomurnar. Mikil ánægja mælist með áfangastaðina eystra meðal ferðafólks en hún getur dvínað séu staðirnir yfirfullir af fólki auk þess fjöldinn getur reynt á þolrif heimafólks. Mögulega er aukningin tímabundin, Úkraínustríðið fælir fólk frá austanverðri Evrópu. Aðalheiður segir reynt að tryggja að sjá fram í tímann til að tryggja of mörg stór skip á sama tíma því það sé engum til góðs.

Lengri útgáfa birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hægt er að panta áskrift hér.