Skip to main content

Von á takmörkuðum afléttingum í Neskaupstað og á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. mar 2023 16:07Uppfært 28. mar 2023 16:09

Til stendur að opna vegina um Fagradal og Fannardal fyrir almennri umferð innan stundar. Vonir standa til að hægt verði að aflétta rýmingu á fleiri húsum í Neskaupstað og einhverjum á Seyðisfirði.


„Það er verið að skoða aðstæður af hálfu Veðurstofu með mögulega afléttingu í huga. Við munum tilkynna það fljótlega en þetta verða mjög takmarkaðar afléttingar í Neskaupstað og á Seyðisfirði,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Veðurstofan hefur einnig skoðað aðstæður í Fannardal og Fagradal. Búið er að ryðja vegina og von á að þeir verði opnaðir fyrir almennri umferð þar sem ekki þykir yfirvofandi snjóflóðahætta þar lengur.

Viðbragðsaðilar leggja nú hins vegar kapp á að búa sig undir næstu daga. Spáð er snjókomu frá kvöldinu í kvöld sem eykst á morgun, nær hápunkti á fimmtudag og minnkar ekki að ráði fyrr en á laugardag.

„Við erum að gera klárt fyrir næstu daga. Reyna að meta hverju sé von á og miðað við það hvaða búnaður og mannafli þurfi að vera á svæðinu. Við vonum að allt fari vel en höfum það sem þarf ef eitthvað gerist.“