Vonast eftir leyfum til fiskeldis í Seyðisfirði í ár
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. mar 2023 08:35 • Uppfært 20. mar 2023 08:43
Fiskeldi Austfjarða væntir þess að fá leyfi fyrir fiskeldi í Seyðisfirði útgefin á þessu ári. Fyrirtækið segir búið að hanna eldisbúnað þannig að hann brjóti hvorki gegn helgunarsvæði Farice-sæstrengsins né gegn öryggi sjófarenda.
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri fyrirtækisins, tók saman fyrir fund með heimastjórn Seyðisfjarðar nýverið.
Þar er tímalína umhverfismats eldisins rakin, að fyrstu drög að matsáætlun hafi verið lögð fram sumarið 2014 og því lokið með áliti skipulagsstofnunar á gamlársdag árið 2021. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun taka síðan ákvarðanir um útgáfu leyfa fyrir starfseminni út frá athugasemdum í álitinu. Í minnisblaðinu segir að sú vinna hafi tafist vegna anna hjá stofnunum en þess sé vænst að henni ljúki á þessu ári.
Reiknað er með tíu þúsund tonna eldi. Samkvæmt burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar er Seyðisfjörur talinn þola slíkt eldi með 6500 tonnum af frjóum fiski en 3500 af ófrjóum.
Telja búnaðinn nógu langt frá Farice
Í minnisblaðinu er komið inn á nokkur af þeim ágreiningsefnum sem ríkt hafa um eldið. Þannig segir Fiskeldi Austfjarða að búið sé að taka mið af 926 metra breiðu helgunarsvæði Farice-sæstrengsins sem liggur inn miðjan fjörðinn. Framleiðandi eldisbúnaðarins hafi hannað hann þannig að bæði kvíar og festingar eigi í öllum tilfellum að vera utan helgunarsvæðisins.
Eldissvæðin eru í Sörlastaðavík, Selsstaðavík og Skálanesbót. Eldissvæðin í Sörlastaðavík og Skálanesbót liggja meðfram helgunarsvæði sæstrengsins en fara ekki inn á það. Eldissvæðið við Selsstaðavík snertir hins vegar helgunarsvæðið en fyrirtækið segir að búnaður stöðvarinnar eigi ekki að gera það. Hönnun stöðvanna við Selsstaðavík og Sörlastaðavík er lokið.
Farice gerði á sínum tíma athugasemdir við staðsetningar eldiskvíanna, sérstaklega stöð undir Háubökkum þar sem kvíarnar sjálfar færu inn á helgunarsvæðið auk nálægðar við staðinn þar sem strengurinn kemur á land. Fallið hefur verið frá þeirri stöð Farice gerði einnig athugasemd við að ekki væri gerð grein fyrir festingum sjókvíanna og minnti á skaðabótaskyldu ef skemmdir yrðu á strengnum.
Skipulagsstofnun lagði áherslu á að við hönnun búnaðar yrði gætt að helgunarsvæðinu og hugað væri að helgunarsvæðinu við útgáfu starfsleyfa. Fiskeldi Austfjarða hét því þá þegar að gera breytingar á búnaðinum til að verja sæstrenginn. VÁ, samtök íbúa sem berjast gegn eldinu, hafa lýst efasemdum um að hönnunin gangi upp.
Segjast utan siglingaleiða
Þá er komið inn á öryggi á siglingaleiðum. Í fyrsta lagi segir Fiskeldi Austfjarða að búnaðurinn sé hannaður þannig að kröfur í strandsvæðaskipulagi Austfjarða séu uppfylltar þannig að yfirborðsbúnaður sé í yfir 50 metra fjarlægð frá svokölluðum hvítum geira Brimnesvita, hins vegar á lágmarki 15 metra dýpi. VÁ hefur vísað til þess að Landhelgisgæslan telji æskilegt að öryggissvæðið séu 200 metrar. Samkvæmt umsögn Vegagerðarinnar um strandsvæðaskipulagið var búnaður mjög nálægt eða jafnvel innan hvíts geira.
VÁ hefur lýst áhyggjum af því að eldisbúnaðurinn þrengi að siglingaleiðum, einkum stærri skemmtiferðaskipa og vísað til norskra reglna um að 1 km breidd. Fiskeldi Austfjarða vísar til orða Vegagerðarinnar um strandsvæðaskipulagið, að erfitt sé að heimfæra reglurnar á íslenskar aðstæður enda sé víða á Austfjörðum ekki hægt að finna 1 km breiða siglingaleið inn firðina. Þar sagði Vegagerðin einnig að tíðni ferða og stærð skipa væri vart sambærileg milli landanna.
Vegagerðin taldi hins vegar rétt að breidd siglingaleiðar yrði að lágmarki 390 metrar yst en 280 metrar innst. Samkvæmt samantekt Fiskeldis Austfjarða verður siglingaleiðin 500 metra breið yst en 420 metrar fyrir innan Sörlastaðavík. Vegagerðin segir þó að 500 metrar sé frekar mjótt og telur líklegt að lóðsskylda verði innleidd á Seyðisfirði ef þurfti, líkt og gert hafi verið á Akureyri fyrir nokkrum árum vegna tíðari skipaferða.
Nánara mat gert á ofanflóðahættu
Um ofanflóðahættu er í minnisblaðinu vísað til mats Veðurstofunnar um að ólíklegt sé að flóðbylgja myndist vegna dýptar fjarðarins. Hins vegar sé í strandsvæðaskipulaginu krafist nánara mats á hættu af völdum ofanflóða og slysasleppingum. Sú vinna standi nú yfir hjá Veðurstofunni.
Þá er komið inn á að til að draga úr líkum á mengun frá næringarefnum við fóðrun sé farið eftir alþjóðlegum stöðlum auk þess að notast við stýringu og fóðurmyndavélar. Minnt er á að eftir slátrun fisks af eldissvæði sé gerð krafa um 90 daga hvíld sem Umhverfisstofnun geti lengt gefi ástand sjávarbotns tilefni til.