Vonast til að dragi úr snjóflóðahættu í dag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2023 09:17 • Uppfært 28. mar 2023 09:20
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands vonast til að líkur á snjóflóðum minnki í dag samfara því sem dregur úr úrkomu. Ný flóð hafa sést við athuganir í Norðfirði í morgun.
Þetta kemur fram í yfirliti frá ofanflóðadeildinni en byrjað var í birtingu að skoða aðstæður. Á Norðfirði hafa bæði fundist ný flóð en sést betur flóð sem áður höfðu sést.
Þannig kemur fram að stórt flóð hafi fallið úr Bakkagili sem ekki náði niður í byggð. Í gær var vitað af snjóflóði úr Skágili sem eyðilagði efsta hluta skógræktarinnar á Norðfirði. Það lenti á varnarkeilum og dreifðist niður að varnargarði undir Drangagili. Úr Ytra-Tröllagili féll flóð sem náði niður að varnarkeilum.
Flóðið sem féll á fjölbýlishús við Starmýri í gær kom úr Nesgili, flóð úr Miðstrandarskarði lokaði veginum innan við bæinn og loks fór snjóflóð yfir veg í Fannardal.
Á Eskifirði hafa ekki sést snjóflóð en snjóflóð úr Hólmatindi náði út á veg utan við álverið í Reyðarfirði. Á Seyðisfirði eyðilagði snjóflóð úr Bjólfsöxl sumarhús utan við norðanverðan kaupstaðinn. Talið er að fleiri lítil flóð hafi fallið úr Bjólfi.
Í yfirlitinu segir að mörg flóðanna séu frekar þurr og virðist hafa farið hratt yfir sem gerir erfitt að sjá ummerki um þau þegar birtiskilyrði eru slæm.
Rýmingar eru enn í gildi í Neskaupstað, á Eskifirði og Reyðarfirði. Tíðinda af þeim er næsta að vænta að loknum fundi almannavarna sem hófst núna klukkan níu.
Veðrið hefur batnað frá í gær sem minnkar hættu á snjóflóðum. Snjóalög eru þó veik og ekki hægt að útiloka stöku snjóflóð meðan áfram er éljagangur og skafrenningur til fjalla. Spáð er úrkomu út vikuna sem fellur sem slydda í byggð en snjókoma til fjalla. Viðbúið er að það veður geti á ný aukið snjóflóðahættu á Austfjörðum.
Veðurstofan tekur á móti tilkynningum um snjóflóð sem hægt er að senda í gegnum form á vef hennar.
Mynd: Landsbjörg