Vonast til að læknar í námi á landsbyggðinni kjósi að starfa þar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jún 2022 11:36 • Uppfært 03. jún 2022 14:08
Fimm sérnámslæknar í heimilislækningum munu starfa hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands næsta vetur. Ráðherra telur ívilnanir á námslánum geta hvatt sérhæft heilbrigðisstarfsfólk til starfa á landsbyggðinni að loknu námi.
Þetta kemur fram í svari Willum Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, þingmanns Norðvesturkjördæmis, á Alþingi nýverið. Bjarni spurði um aðgerðir vegna skorts á læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki víða um land.
Willum sagði víða um heim skort á sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki en í fyrra hefði verið skipaður hérlendis starfshópur um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Hann benti á að í nýlegum lögum um Menntasjóð námsmanna væru að finna ákvæði sem heimilaði afslátt af námslánum ef fólk réði sig til starfa í dreifbýli þar sem þörf væri á ákveðinni sérfræðiþekkingu.
Í byggðaáætlun var aðgerð um sérstakt nám til að undirbúa lækna til starfa í dreifbýli en það fór aldrei af stað. Aðgerðin var því tekin út úr byggðaáætlun við endurskoðun.
Í haust verða 94 læknar í sérnámi í heilbrigðislækninum, þar af 36 eða 38% á landsbyggðinni. Fimm þeirra verða á Austurlandi. Willum Þór segist vænta þess að landsbyggðin njóti góðs af kröftum þeirra þegar náminu ljúki.
Í svarinu kemur einnig fram að 223 stöðugildi lækna hjá ríkinu séu á landsbyggðinni, þar af 78 á Sjúkrahúsinu á Akureyri en 145 annars staðar. Sautján þeirra eru á Austurlandi. Þá kemur einnig fram að 96,6% Austfirðinga búi í innan við 30 km fjarlægð frá heilsugæslustöð sem séu sex í fjórðungnum en 33 alls utan höfuðborgarsvæðisins. Er þetta hlutfall í góðu meðallagi miðað við aðra landsfjórðunga.