Skip to main content

Yfir fimm hundruð manns komast hvergi frá Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2023 19:04Uppfært 22. mar 2023 09:52

Sökum ófærðar á Fjarðarheiði hafa um fimm hundruð farþegar Norrænu verið innlyksa í Seyðisfjarðarbæ lunga dagsins og verða það að minnsta kosti til morguns.

Ferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði í dag í fyrstu ferð skipsins frá Danmörku og Færeyjum eftir stutt vetrarfrí ferjunnar. Um borð voru rúmlega fimm hundruð manns sem margir hverjir hugðu gott til glóðar að heimsækja vinsæla staði á Austurlandi áður en haldið væri aftur á ný til Þórshafnar í Færeyjum ellegar ætluðu lengri túra um landið.

Fólkið þurfti að gera sér að góðu að njóta lífsins í Seyðisfjarðarbæ í dag sökum ófærðar yfir Fjarðarheiðina og upp úr klukkan 18 í dag sendi Vegagerðin frá sér tilkynningu þess efnis að fylgdarakstur ferðafólks yfir heiðina félli niður. Nánari upplýsingar verða ekki í boði fyrr en með morgninum í fyrsta lagi.

Samkvæmt spá Veðurstofu Ísland snjóar töluvert á heiðinni enn og ekkert lát er á ofankomunni langt fram á morgundaginn.