Yfir fimm hundruð manns komast hvergi frá Seyðisfirði
Sökum ófærðar á Fjarðarheiði hafa um fimm hundruð farþegar Norrænu verið innlyksa í Seyðisfjarðarbæ lunga dagsins og verða það að minnsta kosti til morguns.
Ferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði í dag í fyrstu ferð skipsins frá Danmörku og Færeyjum eftir stutt vetrarfrí ferjunnar. Um borð voru rúmlega fimm hundruð manns sem margir hverjir hugðu gott til glóðar að heimsækja vinsæla staði á Austurlandi áður en haldið væri aftur á ný til Þórshafnar í Færeyjum ellegar ætluðu lengri túra um landið.
Fólkið þurfti að gera sér að góðu að njóta lífsins í Seyðisfjarðarbæ í dag sökum ófærðar yfir Fjarðarheiðina og upp úr klukkan 18 í dag sendi Vegagerðin frá sér tilkynningu þess efnis að fylgdarakstur ferðafólks yfir heiðina félli niður. Nánari upplýsingar verða ekki í boði fyrr en með morgninum í fyrsta lagi.
Samkvæmt spá Veðurstofu Ísland snjóar töluvert á heiðinni enn og ekkert lát er á ofankomunni langt fram á morgundaginn.