Ýmislegt sem bæta má við Hengifoss að mati landvarða
Betur má ef duga skal varðandi aðgengi, umhirðu og þjónustu við Hengifoss í Fljótsdal að mati landvarða Vatnajökulsþjóðgarðs.
Samkvæmt sérstökum samningi Vatnajökulsþjóðgarðs (VJÞ) við sveitarfélagið Fljótsdal hafa landverðir þjóðgarðsins eftirlitsskyldu með Hengifosssvæðinu sem er, eins og flestum er kunnugt, annar vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Austurlandi á eftir Stuðlagili. Ferðamannafjöldinn við Hengifoss yfir sumarmánuðina þrjá hefur þrefaldast á innan við tíu árum eða úr tæplega 25 þúsund gestum 2013 í rúmlega 68 þúsund gestakomur í fyrra.
Gera skal sérstaka ársskýrslu vegna þessa og nýverið leit dagsljósið skýrsla landvarðanna fyrir síðasta ár. Allmikið var þá unnið að lagfæringum á göngustígum og nýjar brýr settar niður en betur þarf að gera miðað við margvíslegar ábendingar. Meðal þeirra þykir ljóst að setja má upp fleiri nestisborð við bílastæðið og gera það almennt huggulegra en nú er. Sorpmál þarf að skoða nánar og jafnvel meta hvort sorptunnur séu nauðsynlegar á svæðinu. Þá vantar og að hægt sé að flokka sorp á staðnum. Mörg þeirra upplýsingaskilta sem standa við gönguleiðina eru orðin gömul og úrelt og þarf að endurnýja þau eða fjarlægja. Þá þarf og að halda áfram að skilgreina og hanna útsýnisstaði betur, bæta við fleiri augum og köðlum og skoða nánar öryggismál við Ytri-Sellæk en þar geta ferðamenn auðveldlega lent í hættu.
Nýtt þjónustuhús sem Fljótsdalur er að láta byggja og á að verða tilbúið síðsumars mun breyta ýmsu varðandi aðgengið og þjónustu við Hengifoss til batnaðar en upphaflega var gert ráð fyrir að það hefði risið síðastliðið sumar.