Ýmsar ábendingar til Fjarðabyggðar eftir ungmennaþing
Slæmar samgöngur, of lítið félagslíf, viðvera í skólum og þörf á herða sóknina gegn einelti var meðal þess sem yfir tvö hundruð ungmenni í Fjarðabyggð tjáðu sig um á fyrsta ungmennaþingi sem haldið er í sveitarfélaginu.
Þingið fór fram í grunnskólanum á Fáskrúðsfirði á miðvikudaginn var en það var að mestu skipulagt af ungmennaráði Fjarðabyggðar með dyggum stuðningi sveitarfélagsins sjálfs en verkefnið nýtist sem hluti af verkefninu Barnvænt sveitarfélag.
Elín Eik Guðjónsdóttir, formaður ungmennaráðsins, sagði þingið hafa tekist ótrúlega vel og allir sem að komu hafi verið himinlifandi með að taka þátt og kynnast hvort öðru betur. Svo vel hafi gengið reyndar að þinginu var vart lokið þegar farið var að tala um að endurtaka leikinn að ári.
„Við vorum eiginlega að tala um allt milli himins og jarðar sem var einmitt það sem við vildum að allir fengju að tjá sig um það sem skiptir máli. Það varð töluverð umræða um strætósamgöngur og margir á þeirri skoðun að þar þurfi að gera miklu betur. Ferðir eru ekki nógu tíðar og tímasetningar virðast miðast að mestu við tiltekna íþróttagrein. Það voru nokkrir sem þurfa reglulega að bíða í langan tíma í öðru bæjarfélagi eftir strætó ef þeir sækja viðburð eða tómstundir og það er ekki nógu gott. Þá kom líka fram að gaman væri að efla samvinnu og félagslíf ungmenna í mismunandi bæjarfélögum sem er hluti af þessu sama því það er erfitt nema samgöngurnar séu góðar og reglulegar.“
Eineltismál komu til tals og allir sammála um að þar þurfi að gera enn betur en hingað til. Kvíði er vandamál hjá mörgum og þeir útsettari fyrir athugasemdum frá samnemendum. Elín Eik segir að svokölluð skólaforðun, þar sem einstaklingar gera allt sem hægt er til að sleppa því að fara í skóla, sé raunverulegt vandamál og komið hafi upp sú hugmynd á þinginu hvort breyta mætti viðveru á skólatíma á einhvern hátt til að reyna að vinna bug á þessu.
„Sumir vildu takmarka tíma í skólanum frekar en nú er og aðrir vildu jafnvel færa skólastarfið meira út undir bert loft þegar veður leyfir. Slík gæti verið jákvæðara en að sitja alltaf í skólastofunni.“
Allar hugmyndir sem fram komu á þinginu fara nú til skoðunar innan Fjarðabyggðar og segir Elín Eik vonast til að einhvað af því sem fram kom breytist til batnaðar í kjölfarið. Ungmennaráðið sjálft ætli sannarlega að ræða þessi mál áfram.