Austfirsk mær toppar vinsældarlista Rásar 2

Hún er ekki nýgræðingur í tónlist á neinn hátt enda dundað við slíkt mörg síðustu árin með ágætum árangri. Aldrei áður hefur hún þó toppað vinsældalista Rásar 2 eins og hún gerði á laugardaginn var.

Hér er verið að tala um austfirsku tónlistarkonuna Aldísi Fjólu Borgfjörð Ásgeirsdóttur sem kemur frá Borgarfirði eystri og vitaskuld af mikilli tónlistarfjölskyldu enda er Magni Ásgeirsson, tónlistarmaður og skemmtanahaldari, náskyldur Aldísi svo aðeins einn tónlistarhneigður fjölskyldumeðlimur sé nefndur.

Aldís hefur áður komist hátt á vinsældarlistann, síðast fyrir þremur árum síðan í fjórða sætið, en aldrei grunaði hvorki hana né Halldór vin hennar sem samdi lagið Quiet the Storm með henni að það yrði líklegt til mikilla vinsælda. Halldór samdi lagið en Aldís textann við þetta fallega lag.

„Alls ekki. Við erum enn að klípa okkur til að vita hvort þetta sé raunverulegt en ég auðvitað í skýjunum með þessar viðtökur á laginu og mér þykir sérstaklega vænt um að þetta sé að toppa á Rás 2 vegna þess að ég ólst eiginlega upp við tónlistina frá þeirri stöð. Í sveitinni á Borgarfirði var valið aðeins um Rás 1 eða Rás 2 þegar maður var að vinna verkin sem þarf í sveitinni og þess vegna þykir mér sérstaklega vænt um að hafa náð þessum áfanga þar.“

Aldís er búsett á höfuðborgarsvæðinu en var, þegar Austurfrétt náði af henni tali, að undirbúa för heim á sinn stað í Borgarfirðinum.

„Mér dettur ekki til hugar annað en eyða jólunum heimavið með pabba og hef aldrei verið annars staðar á þeim tíma. Það ekkert yndislegra en komast í kyrrðina og rólegheitin og sérstaklega þegar ég bý í hringiðunni hér suðvestanlands. Svo er spáin framundan miklu betri fyrir austan en hér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.