Skip to main content
Gunnar Gunnarsson rithöfundur. Mynd: Gunnarsstofnun

Sjáum íslenskuna með öðrum augum í gegnum höfunda sem eru innflytjendur

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. nóv 2025 19:25Uppfært 13. nóv 2025 19:27

Skáldið frá Skriðuklaustri, Gunnar Gunnarsson, fluttist ungur til Danmerkur til að verða rithöfundur og skrifaði á dönsku. Eftir að hann flutti heim þýddi hann bækur sínar á íslensku og varð innflytjandi í annað sinn. Málefni innflytjendahöfunda eru í brennidepli á málþingi sem haldið er í tilefni 50 ára ártíðar Gunnars um leið og Aðventa verður lesin á 21 tungumáli.

Gunnar fæddist árið 1889 að Valþjófsstað í Fljótsdal en fluttist sem barn að Ljótsstöðum í Vopnafirði. Átján ára innritaðist hann í danskan lýðháskóla. Hann bjó þar næstu 30 árin og skrifaði sín helstu verk upphaflega á dönsku.

Það eru fleiri íslenskir höfundar sem flytja til Danmerkur á þessum tíma og skrifa á dönsku. Við getum til dæmis nefnt Guðmund Kamban og Jóhann Sigurjónsson. Gunnar og Jóhann flytja því þeir ætla sér að verða atvinnuhöfundar og möguleikarnir á því voru meiri í Danmörku.

Í þá daga voru Ísland og Danmörk að hluta til sama menningarsvæðið og norrænar bókmenntir meiri eining en þær eru í dag. Það var líka ákveðin eftirspurn eftir hinu íslenska, það þótti framandi í dönskum bókmenntum eins og sést á viðtökunum. Þessir höfundar voru öðruvísi í viðfangsefni og stíl,“ segir bókmenntafræðingurinn Jón Yngvi Jóhannsson, sem skrifaði ævisögu Gunnars.

Flytjast til nýs lands og læra nýtt mál á fullorðinsárum

Jón Yngvi flytur opnunarerindi málþings sem haldið verður í Reykjavík á laugardag en um þessar mundir eru 50 ár frá andláti skáldsins. Sérstök áhersla þess eru innflytjendahöfundar og verður þar bæði rætt um stöðu Gunnars sem slíks auk þess sem höfundar fæddir utan Íslands en starfa hér og skrifa á íslensku lesa úr verkum sínum og segja frá reynslu sinni.

Þegar við lesum höfunda sem skrifa á íslensku en eiga annað móðurmál sjáum við íslenskuna oft á annan hátt. Bæði hvernig þeir móta setningar en líka hvernig þeir setja saman ný orð. Þeir eiga þetta sameiginlegt með Gunnari og þetta er eitt af því sem gerir þennan skáldskap merkilegan.

Víða á Norðurlöndunum eru höfundar sem eru af annarri kynslóð innflytjenda og hafa alist upp með tungumálinu en okkar höfundar hafa flust til Íslands og lært íslenskuna sem fullorðnir sem aftur setur svip sinn á hvernig þau skrifa. Þetta eiga þau líka sameiginlegt með Gunnari.“

Gunnar innflytjandi öðru sinni við heimkomuna

Gunnar flutti aftur til Íslands árið 1939 og byggði upp stórhýsi á Skriðuklaustri í Fljótsdal sem heldur nafni hans á lofti. Þegar Gunnar flytur heim verður hann innflytjandi aftur,“ bendir Jón Yngvi á.

Þar hófst Gunnar handa við að þýða bækur sínar á íslensku en áður höfðu aðrir höfundar, til dæmis Halldór Laxness, séð um það. Þær þýðingar Gunnars hafa stundum verið gagnrýndar fyrir að vera þunglamalegar og verri en annarra.

Ég get tekið undir að stíll Gunnars hafi verið þunglamalegur en ekki að hann hafi verið gamaldags. Hann er áfram að gera tilraunir með tungumálið en skrifaði flóknari stíl sem var undir áhrifum þess að hafa skrifað lengi á dönsku. Sá stíll virkaði býsna framandi miðað við það sem var í gangi.“

Staða Gunnars sterk enn í dag

Jón Yngvi hefur stundum bent á að ævisaga Gunnars sé merkileg fyrir það sem ekki sé í henni, það er árin í Lærða skólanum sem finna má hjá flestum samtímamönnum hans. Gunnar kom hins vegar fyrr til Kaupmannahafnar en Reykjavíkur. Þangað flutti Gunnar þó eftir aðeins níu ár á Klaustri. 

Jón Yngvi segir stöðu Gunnars sem höfundar í íslenskum samtíma býsna góða en Gunnar var í áratugi mest seldi íslenski höfundurinn erlendis og fékk tilnefningu til bókmenntaverðlauna Nóbels. „Staða Gunnars er býsna góð í samanburði við flesta aðra rithöfunda frá þessum tíma, nema Halldór Laxness, sem skekkir allan samanburð. Þessir höfundar eru flestir algjörlega gleymdir meðan enn má kaupa Svartfugl og Aðventu í búðum.

Meðan Gunnar býr á Klaustri er hann fjærri miðjunni og tengslanetunum en eftir að hann flytur til Reykjavíkur gerist hann virkur þátttakandi í samfélagi rithöfunda og jafnvel stjórnmálum og menningarpólitík.

Árin eftir stríð litast mjög af kalda stríðinu og það klauf menningarlífið. Gunnar færist til hægri eftir því sem líður á. Um miðjan sjötta áratuginn skipar hann sér í fyrsta einn eindregið í sveit. Það aflaði honum ákveðinna vinsælda en snéri líka gömlum kunningjum og vinum gegn honum.“

Aðventa lesin á 21 tungumáli

Málþingið verður í húsi Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Eftir hádegi munu um 30 manns taka þátt í að lesa Aðventu á um 20 tungumálum vítt og breytt um húsnæðið. Bókin er víða lesin á aðventunni en hún hefur síðustu tíu ár komið út í 15 nýjum þýðingum, síðast á ensku hjá Penguin-forlaginu fyrir mánuði. Aðventa verður síðan lesin á Skriðuklaustri þann 7. desember næstkomandi. Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður, mun lesa þar sjálfur en hann lætur af störfum um áramótin eftir 26 ára starf.