Austurland í morgunskímunni úr 35 þúsund feta hæð

Það þurfa allmörg púsl að falla á réttan stað til að ná svo magnaðri ljósmynd sem meðfylgjandi mynd er sannarlega en á henni má sjá hvorki fleiri né færri en átta þéttbýlisstaði á Austurlandi í morgunskímunni sjöunda dag janúarmánaðar 2024.

Það var Hannes Jón Marteinsson, flugstjóri hjá Icelandair, sem reif upp síma sinn klukkan 08.55 í gærmorgun þegar hann flaug Boeing-þotu flugfélagsins yfir Austurland á leið með farþega til Helsinki í Finnlandi enda bæði birtan og skilyrði öll með ólíkindum góð.

Aðspurður segir Hannes Jón að þetta sjónarhorn yfir stóran hluta Austurlands náist aðeins á flugleiðinni til Finnlands því allar aðrar flugleiðir Icelandair austur á bóginn liggi nokkuð sunnar. Slík birta og útsýni sem hér náðist sé þó æði einstakt fyrirbæri.

„Ég var í um 35 þúsund feta hæð [kringum 10,7 kílómetrar] þegar myndin var tekin í þessari einstöku birtu þennan morgun. Ég tek oft myndir á flugi hér og þar en hef aldrei áður náð svona mynd af Austfjörðum. Reyndar er ég ekki oft á þessari leið en ég geri fastlega ráð fyrir að svona birtuskilyrði séu ekki oft í boði.“

Auðveldlega má sjá ljósin á Egilsstöðum, Fellabæ, Mjóafirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði á myndinni jafnvel þó myndin sé hreyfð lítið eitt. Hannes Jón segir að ekki hafi verið um merkilegar ljósmyndagræjur að ræða við tökuna heldur hafi hann tekið myndina með „sínum gamla góða iPhone 11.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.