Bjart framundan hjá Björt verslun í Neskaupstað

Ekki of oft sem nýjar verslanir taka til starfa á Austurlandi en það gerðist þó með þokkalegu pompi og prakt í Neskaupstað í byrjun mánaðarins þegar Birta Sæmundsdóttir lét gamlan draum rætast og opnaði þar verslunina Björt.

Í nýrri og glæsilegri versluninni að Hafnarbraut 3, þar sem lengi vel var rekin verslunin Kristal, hefur nú opnað gjafavöruverslun undir heitinu Björt verslun en að baki henni stendur Birta og fjölskylda og hún himinlifandi með mótttökurnar fyrstu dagana sem opnað var.

„Þetta hefur gengið afar vel þessa fyrstu daga og það fyllir mig mikilli bjartsýni hversu margir hafa sýnt þessu áhuga og komið til okkar hér. Sjálf var ég ekkert búin að gera mér neinar sérstakar vonir en ég er mjög ánægð með aðsóknina hingað til. Að opna verslun hefur blundað í mér um margra ára skeið eða allar götur síðan ég var að vinna hjá henni Mæju sem átti Kristal en ég vann í nokkur jól hjá henni. Þá var ég svona kringum tvítugt minnir mig og mig langaði alltaf að eiga þessa búð og var sennilega farin að þreytu Mæju með þeim hugmyndum að taka við búðinni. Svo þegar ég frétti í lok síðasta sumars að hún ætlaði að hætta gat ég ekki hætt að hugsa um þetta og keypti búðina.“

Í Björt er fyrst og fremst til sölu alls kyns gjafavara en Birta segir að hún vilji stækka vöruúrvalið síðar meir. Hún nær þó ekki að einbeita sér að fullu að nýju versluninni fyrr en á nýju ári.

„Við erum með ýmislegt til gjafa. Það eru skartgripir, kertastjakar, rúmföt og náttföt og ýmsar jólavörur. Mér leist alltaf vel á að opna fyrir þessi jól og hafði hugsað mér að opna fyrr en ég gerði en ég er náttúrulega enn í annarri vinnu þannig að það tafðist aðeins. En miðað við viðtökurnar þá hitti ég á hárréttan tíma því það eru auðvitað margir að versla meira en venjulega í desembermánuði og ótrúlega margir kringum mig sem kjósa helst að versla í heimabyggð sé þess kostur. Ég sé fyrir mér að fara í þetta á fullu á nýju ári og svo verður framhaldið bara að koma í ljós. Ef þetta gengur upp þá verð ég ánægð því mér finnst þetta gaman.“

Birta á opnunardaginn með eina freyðivín í tilefni dagsins. Hún fékk hjálp úr ýmsum áttum til að láta þennan draum verða að veruleika. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.