Blendnar tilfinningar að hætta eftir fjórtán ára rekstur

Fyrr í þessum mánuði afhenti Helga Vigfúsdóttir sveitarstjóra Fljótsdalshrepps lykla að gistihúsinu að Végarði en þar hefur Helga síðustu fjórtán árin byggt upp staðinn sjálfan sem og afar gott orðspor en nýir eigendur keyptu reksturinn af sveitarfélaginu snemma í vetur.

Það fátt einfalt við að leggja sísona til hliðar bæði áhugamál og lífsviðurværi síðustu fjórtán ára einn góðan veðurdag en sem rekstraraðili hefur Helga bæði upplifað góða tíma og miður góða tíma í ferðaþjónustu. Ferðamannafjöldi við Hengifoss, líkt og annars staðar á Austurlandi, margfaldast á þeim tíma sem hún hefur rekið gistihúsið og sjálf segir hún liðið ár hafa verið það allra besta frá því hún kom að rekstrinum.

„Nýir eigendur eru því að taka við á besta hugsanlega tíma að mínu mati og framtíðin björt í þessum rekstri. Sjálf viðurkenni ég að þetta er dálítið sérstakt að vera ekki lengur með puttana í þessu. Þar hjálpar kannski að þessi tími ársins hefur gjarnan verið mjög rólegur og notaður til að dytta að og sinna viðhaldi ýmsu. Eflaust mun fara aðeins meira um mig þegar líður fram á vorið þegar venjan er að staðurinn fer að fyllast og líf færist í tuskurnar. En ég er afar glöð að þarna er ungt fólk af svæðinu að taka við og sjálf gæti ég alveg notað fleiri stundir fyrir sjálfa mig en ég hef gert síðustu árin. Blendnar eru tilfinningarnar sannarlega en ég óska nýjum eigendum velfarnaðar í framtíðinni.“

Gistihúsið að Végarði sem undir stjórn Helgu hét Hengifoss Guesthouse, mun kallast Fljótsdalsgrund eftirleiðis en það er nafn þess félags sem keypti reksturinn af Fljótsdalshreppi en Helga sjálf leigði reksturinn frá upphafi.

Sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, Helgi Gíslason, tekur við lyklunum að gistihúsinu úr höndum Helgu en ítarleg úttekt á staðnum leiddi í ljós að þar er allt eins og best verður á kosið. Mynd Fljótsdalshreppur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.