Byggja upp fuglaskoðunarhús á Norðausturlandi

Félagasamtökin Fuglastígur á Norðausturlandi hefur síðustu sumur staðið fyrir uppsetningu sex fuglaskoðunarhúsa á svæðinu. Meðal þeirra eru hús við Nýpslón á Vopnafirði.

Fuglastígur á Norðausturlandi eru opin félagasamtök sem starfa að uppbyggingu fuglaskoðunar frá Húsavík að Vopnafirði. Samtökin eru opin öllum þótt uppistaðan séu ferðaþjónustuaðilar. Sumarið 2021 fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir þremur fuglaskoðunarhúsum og aftur í fyrra en þá byggðust austustu skýlin upp. Uppbyggingin síðustu ár hefur einnig verið í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu.

„Markmiðið með Fuglaskoðunarstígnum er að draga fram það mikla og fjölbreytilega fuglalíf sem er á Norðausturlandi og gera það öllum aðgengilegt. Það hefur ákveðna sérstöðu hérlendis, er að mörgu leyti fjölbreyttara. Við höfum eftirsóknarverða fugla sem ekki sjást í öðrum landshlutum eða jafnvel Evrópu, eins og húsönd, himbrima og straumönd,“ segir Hermann Bárðarson sem leitt hefur uppbyggingu húsanna fyrir Fuglaskoðunarstíginn.

Stúkusæti yfir lónið


Húsin hafa risið eitt af öðrum, svo sem við Skoruvíkurbjarg á Langanesi, við höfnina og Kópaskeri og Bakkahlaup, neðsta hluta Jökulsár á Fjöllum. Húsið við Nýpslón hjá Vopnafirði hefur þá sérstöðu að vera hið eina sem er á tveimur hæðum. Á efri hæðinni er nokkurs konar stúka þaðan sem horfa má yfir lónið og leirurnar en á neðri hæðinni eru gluggar og skjól.

„Ástæðan fyrir efri hæðinni er að við vildum gera fólki kleift að sjá yfir leirurnar í lóninu. Þær skapa því sérstöðu. Þetta er stórt svæði þar sem einkum vaðfuglar safnast saman. Þess vegna er gott að hafa yfirsýn,“ útskýrir Hermann.

Norsk arkitektastofa var fengin til að hanna húsin. „Við lögðum upp með aðlaðandi en hentuga hönnun. Við fréttum af þessari stofu sem hefur sérhæft sig í að hanna fuglaskoðunarskýli og fengið lof fyrir. Þau komu til okkar og við völdum staðina saman. Það er því sérhannað skýli á hverjum stað þótt það sé ákveðin lína í hönnuninni og þar með sami svipur.“

Auglýsa Ísland fyrir fuglaskoðara


Fuglastígurinn hefur undanfarin ár markaðssett fuglaskoðun á svæðinu með bæklingum og heimasíðunni birdingtrail.is. Þar má finna fleiri áhugaverða stað og upplýsingar um fugla. Til stendur að byggja upp fleiri hús en fyrst og fremst aðstöðuna við húsin sem nýtast fleiri en fuglaskoðurum. „Þau eru ekki bara ætluð fyrir fuglaskoðara heldur náttúruunnendur almennt sem geta sest niður og átt rólega og góða stund á meðan þeir skoða fuglalífið og náttúruna.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.