Ellefu áramótabrennur á Austurlandi þetta árið

Austfirðingar flestir þurfa ekki langan veg að fara til að komast á áramótabrennu á gamlársdag en einar ellefu slíkar eru fyrirhugaðar lokadag þessa árs á sunnudaginn kemur. Þær allar í samvinnu sveitarfélaganna, björgunarsveita og eftir atvikum íþróttafélaganna á hverjum stað fyrir sig.

Brennur verða í öllum stærstu kjörnum Fjarðabyggðar. Á Reyðarfirði fer slík fram á Hrúteyri rétt utan gangnamunna, á Eskifirði við gömlu steypustöðina, á Stöðvarfirði á Byrgisnesi, á Fáskrúðsfirði við austurenda flugbrautarinnar, í Neskaupstað utan við flugvöllinn og í Breiðdalsvík er staðsetningin malarsvæðið sunnan við gámavöllinn. Kveikt verður undir á öllum stöðum klukkan 17 á gamlársdag ef undan er skilin brenna Stöðfirðinga sem hefst klukkan 20.30 við Byrgisnes.

Vopnfirðingar láta ekki sitt eftir liggja og hafa hent í góðan stafla ofan við Búðaröxl og þar skal bera eld að um klukkan 16.30. Heimamenn ætla jafnframt að kveikja undir nokkrum flugeldum á sama svæði hálftíma síðar.

Íbúar Múlaþing geta valið um fjórar staðsetningar. Menn fyrstir til á Egilsstöðum klukkan 16.30 í Tjarnargarðinum en þar verður jafnframt boðið upp á flugeldasýningu af Þverárklettum hálfri klukkustund síðar klukkan 17. Stöllurnar Dögun Óðinsdóttir og Svandís Hafþórsdóttir munu einnig ylja gestum með samsöng á þessum tíma. Bæði á Djúpavogi og Seyðisfirði verður kveikt undir á slaginu 17 á sunnudag og þar sömuleiðis boðið upp á flugeldasýningar eins og á Egilsstöðum. Það eru svo Borgfirðingar sem eru síðastir til með sína brennu sem er við norðurenda flugvallarins en þar byrjar ballið klukkan 20.30.

Sem fyrr er fólk hvatt til að fara að öllu með gát við áramótabrennur og kringum flugelda. Gleyma ekki gleraugum eða hjálmum og slíku en aðeins verður leyfilegt að brúka stjörnuljós kringum brennurnar sjálfar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.