Fengu fyrstu sveinsbréfin sem afhent hafa verið á Austurlandi
Þrettán nemendur í húsasmíði og sex nemendur í vélvirkjun í Verkmenntaskóla Austurlands fengu í síðasta mánuði formlega afhent sveinsbréf sín við hátíðlega athöfn en það var jafnframt í fyrsta skipti sem slík sveinsbréf eru afhent á Austurlandi.
Þessi stóri viðburður fór fram á Hótel Hildibrand í Neskaupstað en hluti hópsins lauk prófum sínum síðastliðið sumar þó bíða þyrfti til desember til að flagga sveinsbréfinu sjálfu. Þau Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, varaformaður stjórnar Iðunnar, og Marino Stefánsson, prófdómari, afhentu glöðum hópi bréf sín en að sögn Eydísar Ásbjörnsdóttur, skólameistara VA, standa vonir til að sveinsbréf verði áfram afhent hér austanlands.
„Reglan hefur verið sú að afhending slíkra sveinsbréfa fer fram fyrir sunnan en nú breyttist það og ég bind vonir við að svo verði áfram. Til þess þarf í raun bara ákveðinn lágmarksfjölda sem við eigum alveg að geta náð hér.“
Þess má geta að meðal þeirra sem fengu nú afhent sveinsbréf sín í húsasmíði voru þrír einstaklingar úr einni og sömu fjölskyldunni. Það eru þau Barbara Kresfelder og synir hennar Kári og Týr. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst státar eiginmaður Barböru og faðir Kára og Týs, Haraldur Egilsson, einnig af húsasmíðaprófi frá Verkmenntaskólanum.
Hluti hópsins sem fagnaði stórum áfanganum á Hótel Hildibrand í Neskaupstað í síðasta mánuði. Mynd VA.