Fjölmargt að varast fyrir gæludýraeigendur um jólahátíðina

Saltaður matur, kökudeig, vínber og mandarínur er bara brot af því sem varhugavert getur verið að gefa gæludýrunum okkar en líkurnar á að slíkt rati í skálarnar yfir komandi hátíð eru meiri en á öðrum tímum árs.

Það að ýmsu að hyggja fyrir jól og áramót til að gæludýrunum líði sem best. Velþekkt er að velflest dýr fyllast mikilli hræðslu þegar flugeldar springa allt í kring á Gamlárskvöld og þau engu minna útsett fyrir veikindum eða einhverju þaðan af verra ef tiltekinn matur dettur fyrir þau.

Austurfrétt fékk Agnesi Klöru Ben Jónsdóttur, fjárbónda, hundaræktanda og alhliða gæludýraelskanda til að taka saman nokkra mikilvæga mola sem hollt er gæludýraeigendum að hafa hugfasta yfir hátíðina.

Þó flestir minnist þess þegar gæludýrin eða sveitahundarnir fengu alla afganga og lifðu góðu lífi þá er það ekki endilega raunin í öllum tilfellum. Sum dýr hafa beinlínis beðið bana eftir að hafa innbyrt snefilmagn af tilteknum algengum jólamat. Mörg dýr þola alls ekki súkkulaði af neinu tagi þó vissulega finnist dæmi um þau mörg sem kláruðu allt Nóa konfektið án þess að hafa önnur áhrif en extra margar ferðir út sólarhringinn þar á eftir. Sumir hundar til dæmis eru með sterkan maga en aðrir ekki. Sjálf á ég hund sem bókstaflega kúkar jólaskrauti enda étur hún allt sem hún finnur og er þó enginn hvolpur. Eitt skiptið át hún leður-nasamúl með koparlykkjum en það skilaði sér allt út að lokum. Þegar hún gaut fyrr á árinu ældi hún upp einum sokk rétt áður en fyrsti hvolpurinn fæddist. Maður veit þó aldrei hvenær þau éta það sem beinlínis veldur dauða þeirra.

Það sem er ákaflega gott að hafa hugfast fyrir hátíðina er að veislumaturinn getur verið mikið saltaður. Skatan, saltfiskurinn, reykta kjötið og auðvitað hangikjötið er jafnan vel salt en það fer ekki vel í nein gæludýr fremur en mannfólkið. Salt er beinlínis notað til dæmis til að framkalla uppköst hjá hundum ef þeir éta einhvern óþverra. Ekki má heldur gleyma þegar farið er út að labba með hundana að það er oft salt á götum og gangstéttum sem festist við feld þeirra eða loppur sem þeir svo sleikja þegar heim er komið og bara það getur haft afleiðingar.

Ávextir á borð við mandarínur eða slíka sítrusávexti þola mörg dýr alls ekki. Sömuleiðis er þekkt að vínber eða rúsínar geta framkallað nýrnabilun hjá gæludýrum. Kökudeigið er jafnan gott en það beinlínis veldur gerjun í maga dýranna sem getur haft afleiðingar. Elduðu beinin er sjálfsagt það sem flestum finnst eðlilegt að gefa dýrunum eftir veislu en það getur verið stórhættulegt. Það flísast auðveldlega úr elduðum beinum sem getur aftur valdið miklum skaða í meltingarvegi dýranna. Gáfulegra er að gefa þeim hrá bein fremur en elduð. Annað sem margir hugsa lítt út í eru jólaborðar og jólabönd sem dýrin sækjast stundum í og geta auðveldlega flækst í meltingarveginum. Gæta þarf þess hjá þeim sem eru með lifandi jólatré að dýrin komist ekki í þau þar sem á þeim er oft eitraður áburður. Aðrar eitraðar plöntur fyrir mörg dýrin eru Jólastjörnur og Monsterur sem margir hafa uppi yfir hátíðina.

Besta ráðið fyrir fólk með gæludýr er að flytja út í sveit skömmu áður en sprengjuglaðir Íslendingar hefjast handa að skjóta upp flugeldum sem oft gerist löngu fyrir Gamlárskvöld hjá þeim verstu. Vænlegt er hinum að reyna að kynna dýrin fyrir sprengjuregninu og hávaðanum sem þeim fylgir fyrirfram og til dæmis gegnum myndbönd í tölvum eða gegnum sjónvarp. Þannig venjast þau látunum áður en þau ganga í garð. Ráðlegt er og á Gamlárskvöld að dýrin sjái að eigandinn eða eigendur séu rólegir og kippi sér ekki upp við óvænt lætin. Gott er að hafa útvarpið hátt stillt og jafnvel draga fyrir glugga ef sýnt þykir að dýrin séu orðin hrædd. Sömuleiðis þarf að gæta þess að það er verið að sprengja eitt og annað utan Gamlárskvölds þannig að ef fólk er að labba með dýrin að hafa þau í taumi því ein sprengja í nágrenninu getur sett allt á annan endann.

Við fjölskyldan og dýrin að Refsmýri í Fellum sendum okkar bestu kveðjur til allra með von um að allir komist heilir og sáttir gegnum hátíðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.