Fékk ekki að fjarlægja vélar
Í gær voru vélar í eigu Fossvíkur ehf., sem áður rak frystihúsið á Breiðdalsvík, kyrrsettar með úrskurði sýslumannsins á Eskifirði. Aðili á vegum Fossvíkur kom þeirra erinda að fjarlægja vélar í eigu fyrirtækisins úr frystihúsinu, þar sem Festarhald ehf. rekur nú matvælavinnslu.
Heimamenn vörnuðu Fossvíkuraðilanum þess að fjarlægja tækin, meðal annars með því að leggja stórri vinnuvél við skemmudyr hússins. Lögmaður Byggðastofnunar hefur í áliti ritað að eiganda Fossvíkur sé óheimilt að fjarlægja tækin þar sem hann skuldi stofnuninni fé. Þá mun Fossvík einnig skulda Breiðdalshreppi fjármuni. Lögmaður sveitarfélagsins og fulltrúi sýslumannsins á Eskifirði voru á Breiðdalsvík í gær og lyktaði málum svo að vélar þær sem Fossvík telur sig eiga verða ekki fjarlægðar þá viku sem kyrrsetningarúrskurðurinn gildir. Sýslumaðurinn á Eskifirði hefur óskað eftir að Fossvík verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna vangoldinna opinberra gjalda. Verður gjaldþrotabeiðnin tekin fyrir hjá Héraðsdómi Austurlands 14. apríl næstkomandi.