Frú LúLú lokkar

Hákon Guðröðarson hefur opnað kaffi- og menningarhús í Bakka í Neskaupstað. Húsið, sem hefur bæði sögu og sál, er þekkt sem verslunarhús síðan um aldamótin 1900 og Norðfirðingar þekkja það sem búðina hans Bjössa að Bakka. Húsið hefur nú fengið nýtt hlutverk sem Frú LúLú.

gurur_hkonarson_vefur.jpg

Þegar gengið er inn í húsið tekur á móti manni notalegt, heimilislegt andrúmsloft rétt eins og gengið sé inn til hennar LúLú, gamallar frænku eða ömmu, notalegt og hlýlegt. Eitt af því fyrsta sem maður tekur eftir er gamaldags símaborð og skífusími , húsgögnin eru gömul og meira og minna fengin úr Góða hirðinum, en þó eitthvað  hjá vinum og vandamönnum. Sama má segja um borðbúnað og aðra innanstokksmuni. Nokkrir hlutir tilheyra Byggðasafninu og eru þeir í láni frá Fjarðabyggð, sagði Hákon.

Hvernig kom það til að þú fluttir aftur heim og opnaðir kaffihús? 

,,Það er búinn að vera draumur í mörg ár að gera eitthvað í þessum stíl og þegar ég kom aftur til Íslands eftir nám við hótel- og veitingastjórnun við Hotel Institute Montreux í Sviss, frétti ég að staðurinn væri til leigu og upp frá því fór ég að þróa þessa hugmynd.

Trúi á núið og er mjög feginn á þessum tímapunkti að vera bara kominn heim. Það væri líka frábært að sjá eflingu í ferðaþjónustu og taka þátt í þeirri uppbyggingu.“

 

Hvernig staður er Frú LúLú? 

,, LúLú er hlýlegur staður þar sem tilvalið er að líta inn með bók , handavinnu , tölvuna eða heimanámið og verja þess vegna öllum deginum, hvort sem er einn eða með öðrum og fá sér eðalkaffi og með því. Allt bakkelsi er heimabakað og vekur upp minningar margra um baksturinn hennar ömmu. Það verður ekki fastur matseðill heldur breytilegt frá degi til dags. Í hádeginu er hægt að fá súpu og salat.

Ýmsir möguleikar eru í boði og getur fólk leigt sal fyrir einkasamkvæmi og smærri fundi og eins er sniðugt fyrir vinnustaði, saumaklúbba og aðra hópa að hittast á staðnum.“

  Hvernig verður opið og hvað er framundan? 

,,Það verður opið alla daga vikunnar fram á kvöld og lengur um helgar. Svolítið í anda Rosenberg. Húsband Frú LúLú kemur til með að troða upp nokkrum sinnum í mánuði en í bandinu er fjölbreyttur hópur tónlistarmanna og það verður nánar auglýst síðar. Ýmsar hugmyndir eru í loftinu en þetta kemur allt í ljós.“

En eitthvað sem þú vilt segja svona að lokum? 

,,Við það að flytja hingað aftur núna sé ég minn heimabæ í nýju ljósi. Heimkoman er mjög ljúf. Hér ríkir sannur ungmennafélagsandi, samstaða og fólk þarf ekki eins mikið. Hér erum við ekki  á kafi í þessari neysluhyggju eins og á suðvesturhorninu þar sem ég hef verið í tæpt ár. Unga fólkið að flytja aftur heim, stolt af sínum heimahögum og ánægt að koma aftur. Þetta er fjölskylduvænt samfélag. Á krepputímum er líka nauðsynlegt fyrir fólk að eiga afdrep eins og Kaffi LúLú til að kíkja inn, hitta mann og annan og  fá sér kaffi og heimabakað.“


                                                                                                        ÁL

 

Mynd: Guðröður Hákonarson leggur metnað í að fanga gamaldags andrúmsloft þar sem notaleg stemning, afbragðskaffi og heimabakað skapar vé frá amstri hvunndagsins./ÁL

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.