„Fyrst amma gat búið hlutina til í Skriðdal um miðjan vetur hlýt ég að geta það í 101“

Fulltrúar veitingastaðarins BakaBaka úr miðborg Reykjavík verða með matseðil og bollur úr smiðju sinni á Salti á Egilsstöðum um helgina. Stofnandi BakaBaka segir innblásturinn að því að gera sem mest frá grunni koma frá ömmu sinni í Skriðdal.

„BakaBaka er í þraun þrennt: bakarí, kaffihús og veitingastaður. Við leggjum mikla áherslu á að gera allt sem við getum frá grunni, hvort sem það er hluti af ostunum, allt brauðmeti eða pylsur.

Við leikum okkur með hráefnið og gerum tilraunir. Við byggjum á því að flest sem við kaupum úti í búð var einhvern tíma búið til af meiri metnaði. Það er líka gaman að búa til hlutina. Þegar ég borða mat þá gefur það mér mest að einhver hafi lagt ást í að búa hann til.

Þannig var það hjá ömmu í Skriðdal. Þar var mjólkin skilin til að búa til rjóma og smjör. Krukkunum var ekki hent því það þurfti að nota þær fyrir veturinn. Þangað sæki ég innblásturinn. Ef amma gat gert hlutina í Skriðdal um miðjan vetur þá get ég gert þá í 101,“ segir Ágúst Einþórsson, stofnandi BakaBaka og einn þeirra sem kemur austur um helgina.

Ágúst, sem er alinn upp á Egilsstöðum, stofnaði áður Brauð&Co. „Ömmu fannst ekki merkilegt þegar við sögðum henni frá hvað við vorum að gera þar og hristi hausinn. Súrdeigsbakstur var ekkert nýr fyrir henni, í sveitinni var reglan að geyma hluta af deiginu til að nota næst.“

Bankastrætið hét áður Bakarabrekka


BakaBaka hefur verið starfrækt í tvö ár að Bankastræti 2 í hjarta Reykjavíkur, húsinu sem flestir þekkja sem Lækjarbrekku. „Húsið var byggt sem fyrsta bakarí á Íslandi um 1830. Gatan hét upphaflega Bakarabrekka, þar til Landsbankinn opnaði þar sem skemmtistaðurinn B5 er núna.

Húsið fyrir aftan okkur kallast Kornhlaðan. Á gömlum myndum af Reykjavík sést mylla hér uppi á hæðinni. Korninu var safnað í hlöðuna, síðan þurfti bakarinn að fara með það í hjólbörum upp í mylluna til að mala það og til baka með hveitið til að baka úr því.“

Hlakkar til að koma heim


BakaBaka verður með kvöldverðarseðil á Salti á föstudags og laugardagskvöld. „Við verðum með ost sem við gerum úr mjólk frá Egilsstaðabúinu og ravioli með fyllingu úr þeim osti. Eins verða rauðbeður úr Vallanesi og kjötbollur sem við foreldum í eldofninum okkar hér syðra en við kyndum hann við eldivið frá Hallormsstað. Síðan verða tvær tegundir af pítsum og tiramisu í eftirrétt.“

Þar sem bolludagurinn er eftir helgi verða einnig bollur frá BakaBaka á laugardag. „Við verðum með tvær gerðir sem byggja á crossaint-botni. Þetta eru sömu bollur og við gerum á BakaBaka. Við höfum farið þessa leið því bakaríið þar er ekki nógu stórt til að við getum bakað hefðbundnar bolludagsbollur í miklu magni.“

Ágúst kveðst spenntur fyrir að koma austur um helgina. „Það hefur bókast vel og ég hlakka til að koma til að hitta mitt fólk. Það er alltaf heim að koma austur og Höttur er alltaf mitt lið. Ég held að þetta verði þrusugaman í alla staði.“

Mynd: BakaBaka/Elísabet Blöndal


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.