Fyrsta umhverfisvottaða byggingin á Íslandi
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur auglýst eftir tilboðum í byggingu Gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri, en hún verður fyrsta byggingin hér á landi sem verður byggð samkvæmt vottuðum vistvænum byggingarstöðlum. Útboðið er unnið samkvæmt nýsamþykktri stefnu ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup. Skóflustunga verður tekin að byggingunni 16. apríl að viðstöddum umhverfisráðherra og föruneyti.
Í stefnu ríkisstjórnarinnar er sagt fyrir um hvernig samþætta eigi umhverfissjónarmið í innkaupum hjá ríkinu. Íslenska ríkið kaupir vörur, þjónustu og verk fyrir meira en 100 milljarða króna á ári sem er um fjórðungur af útgjöldum ríkisins. Vistvæn innkaup taka meðal annars til bygginga.
Við hönnun tveggja verkefna á vegum umhverfisráðuneytisins var ákveðið að hafa vistvænar aðferðir að leiðarljósi og leitast við að votta byggingarnar sem vistvænar. Þær byggingar sem um ræðir eru gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri og þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Meðal markmiða við hönnun bygginganna er að takmarka neikvæð umhverfisáhrif, skapa heilnæman vinnustað, minnka rekstrarkostnað og stuðla að góðri ímynd. Stefnt er að því að byggingarnar verði vottaðar sem vistvæn mannvirki samkvæmt vottunarkerfi BREEAM (British Building Research Establishment Environmental Assessment Method).
Vottun byggingarinnar samkvæmt BREEAM gerir ákveðnar kröfur til verktaka, m.a. varðandi verklag á vinnustað og innkaup á byggingarefnum. Þetta þýðir að verktaki skuldbindur sig til þess að vinna samkvæmt virku umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi. Verktaki skal móta umhverfis- og öryggisstefnu fyrir vinnusvæðið, fylgja henni og tryggja að allir á vinnusvæði (bæði starfsmenn og gestir) þekki og fylgi. Verktaki skal einnig útnefna ábyrgðaraðila umhverfis- og öryggismála á vinnusvæðinu. Gerðar eru kröfur um að verktaki skilgreini markmið, vakti, skrái og stýri ákveðnum umhverfisþáttum, s.s. orkunotkun og myndun úrgangs.
Arkitektar Gestastofunnar á Skriðuklaustri eru Arkís efh. en Efla efh. hefur annast umhverfisráðgjöf í samstarfi við Mott MacDonald.
Vistvæn innkaup fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupendur, birgja og samfélagið allt. T.d. draga vistvæn innkaup úr umhverfisáhrifum, þau geta minnkað kostnað og aukið gæði og síðast en ekki síst auka vistvæn innkaup framboð á vistvænum vörum og þjónustu sem nýtist samfélaginu í heild og hvetja til nýsköpunar.
Frá þessu greinir í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneyti og Framkvæmdasýslu ríkisins í dag.