Heiðra Prins Póló sérstaklega á næstu Hammondhátíð

Ein elsta og þekktasta tónlistarhátíð landsins, Hammondhátíðin á Djúpavogi, fer fram í lok mánaðarins en að líkindum hefur sú hátíð aldrei verið glæsilegri en nú verður. Miðasalan hófst í síðasta mánuði og gengur vel.

Á hátíðinni er hinu merka hljóðfæri hammondorgeli gert hátt undir höfði og það gert bæði austfirskir sem og þjóðþekktir listamenn annars staðar frá gegnum tíðina. Gestir næstu hátíðar mega þó eiga von á næsta stanslausri veislu fjóra daga í röð.

Fjölmargir þekktir tónlistarmenn koma þar fram auk þess sem sérstakur dagur verður tileinkaður listamanninum Prins Póló sem lengi bjó í Berufirðinum og átti góð tengsl við marga á Djúpavogi og víðar á Austurlandi. Afmælisdagur hans er 26. apríl og þann dag verður hans minnst sérstaklega á hátíðinni.

Veislan hefst þó deginum fyrr, þann 25. apríl, þegar Eyþór Ingi og hljómsveit hans Babies fara mikinn með tónlist Þursaflokksins sáluga. Þann 27. kemur fram Aldís Fjöla og á eftir henni rokkararnir í Ham áður en hin geysivinsæla Bríet lýkur dagskránni sunnudaginn 28. apríl.

Aldrei fleiri listamenn

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, segir líklegt að fjöldi þekktra listamanna hafi aldrei verið fleiri en nú verður raunin og það kannski ástæða þess að miðasala hafi gengið vel þó enn séu þrjár vikur til stefnu.

„Ég held að það sé rétt metið að aldrei hafi fleiri listamenn komið fram á hátíðinni en þeirri sem framundan er. Öll kvöldin stíga fleiri en einn flytjandi fram sem ég er næsta viss um að hafi ekki gerst áður. Þetta er algjör veisla í öllu tilliti. Miðasalan fór ágætlega af stað í síðasta mánuði en síðan kemur alltaf smá lægð þangað til allt fer á fullt þegar veislan er á næsta leyti. Aðsóknin hefur nánast alltaf verið góð eða betri en góð og ég yrði hissa ef svo verður ekki aftur nú.“

Prins Póló heiðraður

Aðspurð hvers vegna heill dagur nú verði tileinkaður listamanninum Prins Póló, Svavari Péturs Eysteinssyni, sem féll frá langt fyrir aldur fram haustið 2022 segir Halldóra ástæðuna þá hve mikla tengingu hann hafði við Djúpavog þegar hann og kona hans bjuggu í mörg ár í Berufirðinum.

„Þau bjuggu svo lengi á Karlsstöðum í Berufirði og stunduðu þar alls konar tilraunabúskap eins og þeim einum var lagið. Þeim þótti alltaf afar vænt um Berufjörðinn og Djúpavog og mynduðu góð tengsl við marga á þessum slóðum. Hugmyndin að þessu kemur frá verkefni mínu í barnahátíðinni BRAS-inu þar sem við höfum verið að heiðra minningu hans. Þegar ég hafði það á orði við Hammond-nefndina var umsvifalítið ákveðið að fylgja því eftir á næstu hátíð. Það sem verður einstaklega skemmtilegt er að þann 24. apríl ætla leikskólabörn víðs vegar á Austurlandi að flytja lögin hans öll á sama tíma og í kjölfarið verður diskótek á fjórum mismunandi stöðum þar sem þekktir aðilar stjórna diskóteki þar sem tónlistin hans verður í forgrunni. Þannig að strax tveimur dögum síðar verður hann aftur heiðraður á Djúpavogi.“

Listamaðurinn Prins Póló kom sjálfur fram á Hammond-hátíð Djúpavogs á sínum tíma við góðar undirtektir enda nærsveitarmaður á þeim tíma. Hans verður minnst sérstaklega á hátíðinni sem framundan er. Mynd Hammond-hátíð Djúpavogs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.