Helgin: Huldufólk Seyðisfjarðar nálgast á listrænan hátt í nýrri stuttmynd

Ný stuttmynd eftir Björt Sigfinnsdóttur og Mark Rohtmaa-Jackson um tengsl mannfólks, huldufólks og náttúrunnar verður frumsýnd á Seyðisfirði á sunnudag og á sama tíma hátíð á listahátíð í Lundúnum. Á Seyðisfirði verður einnig lokasýning listabrautar LungA-skólans á vorönn 2024.

„Þetta er stuttmynd í rannsóknaformi sem fjallar um tenginguna milli mannsins, huldufólksins og náttúrunnar út frá löngun okkar til að skilja tungumál náttúrunnar og alheimsins.

Við nálgumst viðfangsefnið á listrænan hátt með akademísku ívafi. Við lásum okkur til og rannsökuðum forsögu huldufólks bæði á Íslandi og Seyðisfirði auk þess að skoða lauslaga álíka þjóðsagnaverur víðar.

Á þrettándanum fórum við á stað hér í Seyðisfirði sem okkur fannst vera góð orka á, færðum huldufólkinu fórnir, spurðum hvort við mættum taka það upp með einhverjum hætti og báðum það um að gefa okkur merki.

Við tókum upp drauma okkar og þau hljóð sem við gáfum frá okkur meðan við sváfum. Það kemur hins vegar ekki fram í myndinni hvort við fengum svar, við erum ekki komin það langt. Við vinnum trúlega áfram með þetta viðfangsefni og það gæti enn undið upp á sig eða breyst. Myndin er hins vegar fullkláruð,“ segir Björt.

Frumsýnd um leið í London


Myndin „Raddir landsins sem geymir þig; og klettana, sem féllst þú frá“ verður frumsýnd í Herðubreið á Seyðisfirði á sunnudag klukkan 14:00. Hún verður sýnd á sama tíma á Eavesdropping, tilraunalistahátíð á Café OTO í Lundúnum.

„Mark sá að það var óskað eftir myndum og lagði til að við sendum inn. Við erum mjög ánægð með að hafa fengið það tækifæri,“ segir Björt.

Lokasýning LungA-skólans


Á hádegi á sunnudag opnar lokasýning nemenda á listabraut LungA-skólans á þessari önn í Skaftfelli. Sýningin, Triptykon, er í raun gönguferð um Seyðisfjörð þar sem komið verður við á nokkrum stöðum þar sem verða upplestrar, örleikverk og vídeóverk.

Grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon er á ferð um Austfirði þessa helgina. Hann byrjaði á Egilsstöðum í gær, á að vera í Miklagarði á Vopnafirði í kvöld en bíður þess að komast vegna færðar. Hann á svo að vera í Frystihúsinu á Breiðdalsvík annað kvöld.

Lið Þróttar taka þátt í úrslitakeppni Íslandsmóts U-20 ára/1. deildar í blaki um helgina. Bæði karla og kvennalið félagsins urðu deildarmeistarar en það skiptir engu þegar komið er að úrslitakeppninni þar sem allt er undir. Karlaliðin leika í Neskaupstað á morgun en kvennaliðin í Digranesi í Kópavogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.