Héraðsbúar taka vel mót nýrri fataloppu á Egilsstöðum

Líklega er ekki of djúpt í árina tekið að fullyrða að velflestir, ef ekki allir, eigi töluvert af fatnaði og varningi ýmsum sem safnar orðið ryki í kössum í geymslum og bílskúrum og nýtist engum. Svokallaðar fataloppur hafa þess vegna opnað víða á landinu þar sem fólki gefst kostur á að losna við ýmsar slíkar eigur gegn vægu gjaldi. Ein slík opnaði í byrjun vikunnar á Egilsstöðum.

Móttökurnar þessa fyrstu daga markaðarins 700 básar hafa verið með ágætum að sögn eigandans Erlu Kristínar Guðjónsdóttur en hún og eiginmaður hennar eiga og reka markaðinn. Þetta mun vera þriðji slíki markaðurinn sem opnar á þessu ári á Austurlandi en fyrr á árinu opnaði einn slíkur á Eskifirði og fyrir ekki svo löngu annar á Reyðarfirði. Töluvert hefur verið að gera enda almenningur sífellt meira meðvitaður um að endurnýta hlutina og ganga þannig minna á gjafir jarðar. Svo hefur einnig verið hjá 700 básum.

„Já, viðtökurnar hafa verið fínar þessa fyrsta daga þó við reyndar gerðum okkur grein fyrir að þetta væri kannski ekki allra besti tíminn til að opna með tilliti til þess að flestir eru önnum kafnir fyrir jólin. En við vildum svona aðeins koma okkur á framfæri og erum mjög sátt við hvernig hefur gengið. Þetta er sama fyrirkomulag og annars staðar á slíkum mörkuðum að fólk pantar hjá okkur bás og kemur með fatnað og svona fylgihluti sem það vill losa sig við og við sjáum svo um söluna fyrir þeirra hönd. Það er tæknilega engin takmörk fyrir því hvað má selja hjá okkur svo lengi sem það passi á básinn.“

Erla segir að á nýju ári standi til að hafa opið frá miðvikudegi til föstudags á milli klukkan 15 og 18 og hugsanlega verði eitthvað opið um helgar líka. Hugsanlega verði opið lengur eftir atvikum á tilteknum tímum. Markaðurinn er staðsettur að Tjarnarbraut 21 við hlið Elmu Studio.

700 básar að Tjarnarbraut en þar er hægt að selja notaðar en vel með farnar vörur án þess að eyða miklum tíma til í framtíðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.