Hollvættur á heiði hlaut Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins
Leiksýningin „Hollvættur á heiði,“ sem unnin var og sett upp af menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum hlaut í gærkvöldi íslensku leiklistarverðlaunin, Grímuna, sem barasýning ársins. Framkvæmdastjóri Sláturhússins vonast til að verðlaunin auki möguleikana á atvinnuleikhúsi á Austurlandi.„Þakklæti er okkur efst í huga, bæði fyrir verðlaunin, til áhorfenda sem sóttu sýninguna og Sviðslistasjóðs sem styrkti okkur veglega í fyrra.
Verðlaunin eru viðurkenning á því starfi sem við höfum unnið í vetur og ómetanleg hvatning til að halda áfram á þeirri braut að byggja upp atvinnuleikhús á Austurlandi,“ segir Ragnhildur Ásvaldsdóttir, sláturhússtjóri.
Hollvættur á heiði var sýnt í Sláturhúsinu í nóvember í fyrra. Fagfólk kom að til að hanna ljós og búninga, semja tónlist auk þess sem þrír atvinnuleikarar tóku þátt. Einn þeirra, Vigdís Halla Birgisdóttir, var tilnefnd sem besta leikkona í aukahlutverki.
En með þessu fólki unnu Austfirðingar, sem ekki hafa leikhús að atvinnu. „Það er margt einstakt eða nýtt við þessa sýningu, til dæmis að vera með blandaðan leikhóp atvinnufólks og áhugafólks, þar sem áhugafólkið var í meirihluta. Leikararnir fluttu sjálfir tónlistina á sviðinu, leiddir af Öystein Gjerde. Að þetta hafi allt komið heim og saman er hægt að þakka leikstjóranum Ágústu Skúladóttur og hópnum.“
Samkeppnin í flokknum var hörð. Þar voru tilnefndar sýningar Þjóðleikhússins á Disney-verkinu Frosti, Borgarleikhússins á Fíusól, óperan Hans og Gréta og Kan(l)ínudans úr Tjarnarbíói. Þá segir Ragnhildur að þetta sé í fyrsta sinn sem Grímuverðalaunin fyrir sýningu ársins fari annað en til höfuðborgarsvæðisins eða Akureyrar. „Verðlaunin eru hvatning fyrir atvinnuleikhús á landsbyggðinni því þau taka kastljósið aðeins af höfuðborgarsvæðinu og beina því austur.“
Ný sýning í Sláturhúsinu 2025?
Leiksýningar á borð við Hollvætt á heiði eiga sér langan aðdraganda. Þór Tulius samdi verkið, en hann leikstýrði áður leiksýningunni Sunnefu sem sýnd var í Sláturhúsinu haustið 2020. Þá var verið að útbúa leiksal á efri hæð hússins sem formlega opnaði haustið 2022.
„Þetta hófst með samtali mínu og Þórs þegar Sunnefa var sett upp. Við ræddum breytingarnar á Sláturhúsinu og hann spurði mig hvað mig dreymdi um að setja upp í rýminu. Ég svaraði að ég vildi setja upp frumsamið, íslenskt barnaleikrit.“
Undirbúningur að nýrri sýningu er því hafinn. „Við erum að ræða við höfund en það er á frumstigi. Þegar við erum komin lengra sækjum við um styrki. Þetta er samt sýning sem fer aldrei upp fyrr en árið 2025. Í haust erum við búin að semja við Borgarleikhúsið um að setja upp Kjarval og sýna fyrir öll grunnskólabörn á Austurlandi.“
Ragnhildur vonast til að Grímuverðlaunin hvetji til þess að fleiri atvinnusýningar verði settar upp í Sláturhúsinu. „Við framleiðum þær ekki alltaf sjálfar, það er bæði mannfrekt og dýrt. Þetta kemur okkur hins vegar á kortið til að geta boðið sjálfstæðum sýningum, leikurum og hópum austur. Það eru fleiri sem vita af því að hér sé leikhús tilbúið til sýninga.“
Vantar styrki til að fara með leiksýningar um landið
Ragnhildur segir að fyrir næsta vetur sé verið að skoða fleiri leiksýningar sem mögulegt sé að sýna í Sláturhúsinu. „Við horfum á sýningar sem eru hvorki of fjölmennar né flóknar þannig þær henti til að vera fluttar á milli.
Hérlendis eru ekki veittir styrkir í leikferðir. Við tölum um að tryggja jafnt aðgengi að listum og menningu um allt land en slíkir styrkir eru forsenda þess. Það er ekki sanngjarnt að okkar áhorfendur þurfi að standa undir meiri kostnaði af leiksýningu en aðrir. Þess vegna bindum við vonir við ný sviðslistalög því leikhópar og fleiri hafa áhuga á að koma upp potti fyrir ferðir.“
En það leiðir líka hugann að möguleikanum á að fara í hina áttina. „Til þessa hafa bara austfirskir áhorfendur og dómnefnd Grímunnar séð sýninguna. Okkur hefur alltaf langað að sýna hana syðra. Í vor kom upp hugmynd að sýna hana á Leiklistahátíð ungmenna, en það gekk ekki upp vegna kostnaðar. Verðlaunin opna ákveðnar dyr og þess vegna er kannski næsta skref að heyra í leikhúsunum og athuga hvort þau vilji fá okkur í heimsókn.“
Mynd: Tara Tjörvadóttir