Vonlaust að átta sig á hver segir satt í máli Sunnefu

Nýtt austfirskt leikverk um ævi Sunnefu Jónsdóttur verður frumsýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum annað kvöld. Höfundur verksins segir söguna flókna en bjóða upp á spennandi efnivið fyrir leikskáld.

„Það er góður fiðringur og eftirvænting,“ segir Tinna Sverrisdóttir, sem leikur Sunnefu í sýningunni.

Verkið er tvíleikur en Margrét Kristín Sigurðardóttir leikur aðrar persónur sem Sunnefa mætir á lífsleiðinni. Þær tilheyra báðar leikhópnum Svipum sem heldur utan um uppsetninguna en Þór Tulinus leikstýrir.

Leikhópurinn er einn nokkurra sjálfstæðra leikhópa sem starfa á höfuðborgarsvæðinu en ekki er á hverjum degi sem slíkur hópur frumsýnir utan þess. „Stundum er eins og Reykjavík sé aðal því þar eru leikhúsið og menningin en hér gefst tækifæri til víkka sjóndeildarhringinn og líta aftur í tímann því það gerðist ekki allt í Reykjavík. Þessi saga á heima hér,“ segir Tinna.

Gott að skoða staðhætti

Hópurinn hefur dvalist eystra við æfingar og undirbúning í tæpan mánuð. „Það hefur verið mjög gott að koma austur og æfa verkið í ró og nálægðina við staðina þar sem hlutirnir gerðust,“ segir Margrét Kristín.

Leikverkið Sunnefa – sönn saga byggir á sögu Sunnefu Jónsdóttur frá Geitavík í Borgarfirði eystra. Sagan gerist um miðjan átjándu öld þegar Sunnefa og bróðir hennar voru dæmd til dauða fyrir að hafa eignast saman barn, þá aðeins táningar að aldri.

Jens Wiium, sýslumaður á Skriðuklaustri, sótti systkinin á Borgarfjörð og fór með þau upp í Klaustur. Þar eignaðist Sunnefa annað barn sem einnig var eignað bróður hennar. Þá var sonur Jens, Hans, orðinn sýslumaður og fór með systkinin á Alþingi til að staðfesta dóminn. Þar lýsti Sunnefa Hans föður að barninu og við tók langur og flókinn málarekstur.

Orð á móti orði

Þessi saga varð Árna Friðrikssyni, höfundi verksins og kennara við Menntaskólann á Egilsstöðum, innblástur. „Ég sá fyrst litla grein um mál Sunnefu fyrir um 10 árum og gerði mér þá grein fyrir að málið hefði tekið tæp 20 ár. Ég las mér betur til um það og þá kom í ljós að þetta var gríðarlega stórt og flókið réttarfarsmál.

Það sem er spennandi fyrir leikskáld er að málið leysist ekki og vonlaust að vita hver segir satt því það er bara orð á móti orði. Leikskáldið ræður því dálítið hvaða pól hann tekur,“ segir Árni.

Verkið verður, sem fyrr segir, frumsýnt í Sláturhúsinu á laugardagskvöld. Það verður síðan sýnt á sunnudag og síðan föstudag og laugardag eftir viku. Allar sýningarnar hefjast klukkan 20:00.

Tinna og Margrét Kristín í hlutverkum sínum. Mynd: Tara Tjörvadóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.