Hugsar um Ísland á hverjum degi

Hin þýska Heide Schubert er meðal þeirra Íslandsvina sem í áraraðir hafa heimsótt landið nærri árlega frá 1977. Hún á orðið fjölda sagna af ævintýralegum kynnum af landi sem hafa orðið henni innblástur við listsköpun.

Það var strax í fyrstu ferðinni sem Heide tók að kynnast Íslendingum. Meðal þeirra var Hákon Hansson, dýralæknir á Breiðdalsvík. „Við vorum á bensínstöðinni þar að skipta um olíu á bílnum okkar. Við vildum ekki henda henni út í náttúruna þannig að við spurðum í afgreiðslunni hvað við gætum gert við hana. Okkur var sagt að henda henni bara. Við vildum ekki gera það.

Hákon var þar hjá og heyrði okkur tala þýsku. Hann var þá nýkominn þaðan úr námi. Hann greip inn í, sagðist geta séð um olíuna og bauð okkur heim í kaffi. Hann sá tækifæri á að geta talað þýsku en mig langaði að sjá hvernig væri heima hjá Íslendingi. Síðan var allt þýskt hjá honum! En Hákon tók mjög vel á móti okkur og við höfum alltaf haldið sambandi.“

Heide kynntist síðar fleiri Breiðdælingum. „Öðru sinni vorum við á Breiðdalsvík og ætluðum að hitta Hákon, en hann var ekki heima. Við rákumst hins vegar á mann með úfið hár í gatslitinni peysu. Við sáum strax hann væri Íslendingur og fundum út að þetta væri vinur Hákonar.“

Þar var um að ræða Stefán Stefánsson frá Fagradal í Breiðdal. „Stefán var mjög greindur maður. Hann safnaði steinum og kunni öll latnesku heitin á bergtegundunum. Hann fór mikið upp í fjöll til að safna steinum og gaf mér nokkra.

Stefán kenndi mér síðar að keyra fjallvegi. Ég var eitt sinn með honum og horfði á slóða og sagði: „Stefán, það er ekki hægt að keyra þetta, þetta er ekki vegur,“ en hann svaraði „Þetta er góður vegur.“ Eitt listaverka hennar er nefnt eftir þeim orðum Stefáns og sýnir bíl hans.

Vetur á Hvammstanga


Heide býr í húsi í suðurhluta Augsburgar í Bæjaralandi. Þaðan fluttist fjölskylda hennar þegar hún var lítil, frá Karlsbad, nú Karlovy Vary í vestur Tékklandi, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar hefur Heide alltaf búið en hún starfaði sem kennari áður en hún fór á eftirlaun.

Heide bjó á Hvammstanga veturinn 1991-2, sem er ástæðan fyrir að hún talar íslensku. Hún hafði skilið við manninn sinn og ákvað að leita á aðrar slóðir. „Mér fannst mjög fallegt á Hvammstanga en börnin voru agalaus. Yngstu börnin voru mjög góð við mig, komu hlaupandi til mín til að spjalla. Ég man að þau kynntu mig fyrir yngri systkinum sem voru ekki komin í skólann og tóku fram að þau ættu sama pabba. Það var ekki endilega venjulegt, íslensku fjölskyldurnar voru stórar og börnin áttu margar mæður og feður.

Ég kenndi öllum bekkjum íþróttir og svo þýsku í elstu bekkjunum. Sum höfðu dálítinn áhuga en flestum var alveg sama. Þau sáu sér leik á borði og héldu að þau gætu gert það sem þeim sýndist þegar þau fréttu að það væri þýsk kona, sem skildi ekki íslensku, sem væri að koma til að kenna þeim. Unglingarnir mættu reglulega of seint og sögðust einfaldlega hafa sofið yfir sig.

Á mánudögum kenndi ég sund, stóð á bakkanum í níu tíma. Það var erfitt, sérstaklega á veturna. Ég var í kuldagalla á meðan börnin voru ofan í heitu vatninu. Ég þjálfaði líka hjá ungmennafélaginu. Mér fannst sérstakt hversu ólíkt sömu börnin hegðuðu sér eftir því hvort þau voru á tímum eða æfingum. Í skólanum voru þau alveg bandvitlaus og hlógu að skipunum mínum, en á æfingum gerðu þau allt sem þau áttu að gera og spurðu hvað þau ættu að gera næst þegar þau voru búin.

Ég fór til skólastjórans sem sagðist skilja erfiðleika mína, ég væri kona sem talaði ekki íslensku. En síðan væri það þannig að kennarar væru ónytjungar, fólk sem gæti ekki skorið kindur, veitt fisk eða farið á hestbak. Á kvöldin væri ég hins vegar þjálfari.“

Heide afsakar sig á að íslenskan hennar sé stirð, hún hafi misst niður æfinguna. Það er hógværð. „Þegar ég kom á Hvammstanga lögðu skólastjórinn og kennararnir sig fram um að hjálpa mér við íslenskuna. Við settum okkur það markmið að ég yrði farin að tala íslensku um áramótin. Ég hafði keypt bók um íslenska málfræði og skildi kerfið ágætlega en treysti mér ekki í orðin.

Skólastjórinn útvegaði mér aðstoðarmann sem kom heim til mín á hverjum degi. Ég var með bók sem ég skrifaði íslenskuna í og hann benti mér á hvað væri rétt eða rangt. Hann vantaði hins vegar málfræðina til að geta útskýrt af hverju hlutirnir væru rangir.“

Íslandsmyndirnar


Óhætt er að skilgreina Heide sem Íslandsvin. „Ég hugsa um Ísland á hverjum degi og hringi oft í vini mína þar,“ segir hún. Hún hefur haldið nokkrar listsýningar hérlendis, þá fyrstu í Ráðhúsinu í Reykjavík árið 2001 en síðan nokkrar eftir það, þar með talið í Sláturhúsinu á Egilsstöðum árið 2019.

„Maðurinn minn og ég tókum myndir í ferðum okkar. Ég kunni lítið á myndavélarnar en hann var góður. Sumar myndanna voru ekki nógu góðar, en við vildum samt ekki henda þeim. Myndirnar frá Íslandi voru heilagar. Eitt sinn vorum við að leika okkur með þær og settum tvær saman. Okkur fannst það koma vel út og við fórum að leika okkur meira með þær.

Eftir að ég var orðin ein kom vinkona mín, listakennari, í heimsókn. Henni fannst myndirnar mínar góðar og spurði hvort ég vildi ekki sýna þær. Ég hringdi í Ráðhúsið og spurði hvort ég mætti sýna þar. Ég var beðin um að senda prufu og var síðan boðið að koma.“

Heide hefur sýnt víðar svo sem í Augsburg, München, Berlín, Köln og Nürnberg. Myndirnar hennar eru líka aðgengilegar á www.veruleikar.de. Þar má sjá austfirsk mótíf, jeppann hans Stefáns í Fagradal og Franska spítalann á meðan hann stóð á Hafranesi. „Ég vissi ekkert um sögu þess, fyrir mér var þetta bara gamalt hús sem ég fór alltaf inn í til að mynda.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.