Kæru HSA á hendur yfirlækni vísað frá

Samkvæmt frétt mbl.is í dag hefur embætti ríkissaksóknara ákveðið að vísa kæru Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á hendur Hannesi Sigmarssyni, yfirlækni við Heilsugæslu Fjarðabyggðar, frá. Hannesi var 12. febrúar síðastliðinn vikið tímabundið frá störfum vegna rannsóknar á reikningum frá honum. Eskfirðingar drógu í dag fána að húni til að fagna því að læknirinn hyggst snúa heim til starfa.

eskifjordur.jpg

Yfirstjórn HSA bað lögreglu heima í héraði að rannsaka mál Hannesar og sagði vinnulag og kostnað vegna starfa hans mjög á skjön við það sem tíðkaðist annars staðar innan stofnunarinnar. Lögregla vísaði málinu frá vegna ónógra sönnunargagna. Í kjölfarið var það sent ríkissaksóknara.

 

,,Hannes var ánægður með niðurstöðu ríkissaksóknara er fréttamaður mbl.is náði í hann í dag og segist hann stefna að því að mæta sem fyrst aftur til starfa. Hann segir að málið hafi tekið á og þá ekki síst fyrir fjölskyldu hans. Hann hefur starfað erlendis að undanförnu en geri ráð fyrir því að mæta fljótlega til starfa á ný á Austurlandi.

 

Að sögn Hannesar er niðurstaða ríkissaksóknara sú sama og  rannsóknarlögreglunnar á Austurlandi um að ekkert fyndist athugavert við störf hans og ekki væri grundvöllur fyrir kæru á hendur honum. Því hafi ríkissaksóknaraembættið ákveðið að fella málið niður.

 

Einar Rafn Haraldsson, forstjóri HSA,  kannaðist ekki við að niðurstaða væri komin í málið þegar mbl.is hafði samband við hann í dag en hann hefur ekki fengið upplýsingar um slíkt frá embætti ríkissaksóknara.

 

Hjá embætti ríkissaksóknara fékkst það staðfest að bréf um niðurstöðu málsins hafi verið sent frá embættinu í dag án þess að upplýsingar væru gefnar um innihald þess,“ segir í frétt mbl.is.

 

Beðið er viðbragða frá yfirstjórn HSA.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.