„Langaði að keyra upp góða páskastemmningu hér fyrir austan“

Það ekki farið mikið fyrir en um páskahelgina, ef veðurguðirnir leyfa, fer fram fyrsta sinni bretta- og skíðahátíðin Big Air - Fjarðabyggð en hún er að hluta til í Oddsskarði sjálfu og að hluta til í Eskifjarðarbæ.

Nýja hátíðin kallast nokkuð á við fjallaskíðahátíðina Austurland Freestyle Festival sem mikið til fer fram á sömu slóðum í fjöllum Eskifjarðar. Hér er þó megin áhersla á stökk og ýmsa loftfimleika á skíðum og brettum.

Hátíðin er afsprengi fjölmargra áhugasamra aðila, ekki síst tveggja ungra manna, Wojtek Grzelak og Krystian Zajackowski, en þeir hafa unnið að því að koma slíkri hátíð á koppinn um nokkurn tíma enda báðum fundist mjög vanta á slíkan viðburð á Austurlandi.

Hjálp úr ýmsum áttum

Sjálfur segir Wojtek að fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafi tekið vel í að styðja við og styrkja framtakið sem hann vonast til að geti orðið árlegt héðan í frá. Þar ekki síst Guðmundur Pálsson hjá ECR sem hyggst keyra snjó úr fjallinu niður í bæinn og útbúa þar stökkpall og lendingarsvæðið sem Ingólfur Hreimsson hafi hannað og smíðað. Ragnar Sigurðsson hafi verið ötull að sækja um styrki og gæta að öllum formsatriðum og þeir Ástmar Reynisson og Svavar Þór hjálpað mikið með skipulagningu og ýmsa vinnu sem þessu fylgir.

„Við erum búnir að ræða svona nokkuð í langan tíma okkar á milli og létust loks slag standa nú. Við vorum allir mikið í þessu sporti áður og áhuginn er enn mikill. Svo er bara gaman að rífa aðeins upp stemminguna hér í bænum og á svæðinu með góðum viðburðum. En þetta gætum við ekki án mikillar hjálpar og fjöldi fólks hjálpað til að gera þetta að veruleika.“

Töluverður áhugi

Það er nokkur fjöldi brettakappa búnir að tilkynna komu sínu á svæðið og allir aðrir auðvitað velkomnir ef áhuginn er fyrir hendi.

„ Allt byrjar þetta á föstudeginum með svokölluðu King of the Mountain. Það virkar þannig að keppendur fara af stað með fullt glas í hendi niður brekkuna og sá sigrar sem kemst í mark með mestan vökva enn í glasinu. Þann dag verður líka skíðað yfir tjörn og þá þarf hraða og tækni til ef menn ætla yfir án þess að blotna. Svo tökum við stökkkeppni á laugardeginum yfir veginn að Mjóeyrinni og það er hin eiginlega Big Air hluti keppninnar. Svo verður auðvitað hent í gott partí í lokin í Valhöll með DJ Anton og frítt þar inn.“

Hið eina sem gæti sett strik í reikninginn er veðráttan um helgina en samkvæmt spá Veðurstofu fyrir páskahelgina er von á töluverðri snjókomu næstu daga og nokkuð fer að hvessa þegar líður á laugardaginn. Wojtek segir að svo lengi sem vindátt sé að norðan eða norðaustan eins og útlit er fyrir nú eigi allt að ganga upp því töluvert skjól er í þeirri átt í Eskifirðinum.

Fyrsta Big Air - Fjarðabyggð hefst í Oddsskarði á föstudaginn kemur og er hugsanlega vísir að árlegri hátíð ef vel gengur. Mynd Visit Austurland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.