ME ríður á vaðið í Gettu betur í kvöld

Spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, er með vinsælustu þáttum unga fólksins á Ríkisfjölmiðlinum. Margir aðrir fylgjast grannt og vel með líka og þar ekki síst keppendum úr þeim tveimur skólum Austurlands sem þátt taka hverju sinni. Þeir hinir sömu ættu að leggja við hlustir á lokaviðureign dagsins á Rás 2 í kvöld.

Það verður klukkan 20 í kvöld sem fyrra liðið af tveimur af Austurlandi tekst á við andstæðinga sína í fyrstu umferð keppninnar þetta árið. Þar um að ræða lið Menntaskólans á Egilsstöðum sem etur kappi við Menntaskólann á Ísafirði. Æfingar hafa staðið sleitulítið yfir síðan í októbermánuði undir styrkri stjórn Jóhanns Hjalta Þorsteinssonar en fyrir hönd skólans keppa þar Sebastían Andri Kjartansson, Katrín Edda Jónsdóttir og Kristey Bríet Baldursdóttir.

Hitt lið fjórðungsins, lið Verkmenntaskóla Austurlands, sest svo við hljóðnemann í þeirra fyrstu umferð á miðvikudaginn kemur en andstæðingurinn þar, Kvennaskólinn í Reykjavík, er jafnan í erfiðari kantinum í keppninni. Enginn skyldi þó vanmeta lið Verkmenntaskólans sem hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar komið verulega á óvart í þessari skemmtilegu keppni.

Lið ME sem tekst á við MÍ í kvöld hefur æft duglega um þriggja mánaða skeið. Sem fyrr fara fyrstu umferðirnar fram í útvarpi en strax í byrjun næsta mánaðar mun RUV hefja útsendingar í sjónvarpi. Mynd ME

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.