Nemandi Nesskóla meðal vinningshafa í teiknisamkeppni
Tilkynnt var á dögunum um úrslit í teiknisamkeppni 9. alþjóðlega skólamjólkurdagsins. Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins stendur fyrir samkeppninni hér á landi. Tæplega 900 teikningar bárust frá 54 skólum í landinu. Tíu nemendur hlutu viðurkenningu og meðal þeirra er Hafþór Ingólfsson í 4. bekk Nesskóla í Neskaupstað.
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tilkynnti fyrir skömmu úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðlega skólamjólkurdagsins, sem haldinn er hátíðlegur síðasta miðvikudag í september ár hvert. Eins og undanfarin ár barst mikill fjöldi teikninga í samkeppnina, sem
Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins stendur að hér á landi. Að sögn Guðnýjar Steinsdóttur, markaðsstjóra MS, bárust tæplega 900 teikningar frá 54 skólum alls staðar að af landinu. Tíu nemendum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar að loknu vali á úrtaki mynda sem lagt er fyrir menntamálaráðherra, sem jafnframt er formaður dómnefndar. Verða verðlaunateikningarnar notaðar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna Skólamjólkurdagsins sem fram fer næst í september. Meðal vinningshafa í ár er Hafþór Ingólfsson í Nesskóla á Neskaupstað.