Níundi bekkur Nesskóla sýnir Kardemommubæinn

Níundi bekkur Nesskóla frumsýndi í gærkvöldi leikgerð sýna af Kardemommubænum. Hefð er að bekkurinn setji upp leikverk til að safna fyrir skólaferðalagi sínu. Leikverkið hefur verið aðlagað að stórum bekknum og má í því meðal annars finna fjóra ræningja.

„Við erum fjórir ræningjar núna. Það var bætt við einum því við erum svo stór bekkur. Við erum 26 alls, þar af 22 sem tökum þátt í leikritinu.

Fjórði ræninginn heitir Jón. Hann er allt öðru vísi heldur en við, langvenjulegastur okkar, í raun meðaljón.

Hlutverkið er kannski ekki jafn stórt og okkar þriggja en hann er samt stór hluti leiksýningarinnar. Hann kemur inn með svona fyndnar línur,“ útskýrir Valgeir Elís Hafþórsson sem leikur ræningjann Kasper.

Soffía frænka öskrar á ræningjana


Kardemommubærinn er eitt barnaleikrita norska höfundarins Thorbjarnar Egners sem er löngu sígilt eftir fjölda uppsetninga á íslenskum leiksviðum. Kardemommubærinn er friðsæll nema þar eru ræningjar til vandræða sem bæjarfógetinn vill þó helst ekki handataka. Þar er líka Soffía frænka, sem ræningjarnir ræna til að hugsa um sig en það snýst í höndunum á þeim.

„Við bættum við hlutverkum, erum til dæmis með tvo pylsugerðarmenn og tvo bakara. Við bætum ekki mörgum línum við, frekar að þeim sé skipt milli hlutverkanna,“ segir Emilíana Guðrún Sigurjónsdóttir, sem leikur Soffíu frænku.

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Ég hef þurft að fara aðeins út úr kassanum og feimninni, ég hef ekki áður verið í svona stóru hlutverki. Þetta er smá stressandi. Ég þarf að vera reið uppi á sviði, gretta mig og vera pirruð. Í senunum með ræningjunum öskra ég mikið. Þannig er ég ekki dagsdaglega þótt ég getið öskrað ef ég er pirruð,“ segir Emilíana.

Leiksýning fyrir ferðasjóð


Hefð er fyrir metnaðarfullum leiksýningum á vegum níunda bekkjar Nesskóla. Algengt er að annað hvert ár sé sett upp barnaleikrit en hitt árið eitthvað sem kalla mætti fullorðinsverk, samanber Grease í fyrra. Þetta skapar því alltaf eftirvæntingu hjá þeim bekk sem er næstur á eftir.

„Það var skemmtilegt að fylgjast með þessu í fyrra, krökkunum fara á æfingu og heyra hvað væri í gangi. Maður verður alltaf spenntari og spenntari eftir því sem maður gerir sér betur grein fyrir hvað maður er að fara að gera,“ segir Valgeir.

Þau segja æfingarnar hafa gengið vel þótt tímabilið sé strembið. Emilíana útskýrir að dagarnir séu langir, leikæfingarnar bætist við íþróttaæfingar og skóla, þótt aðeins hafi verið slegið af kennslustundunum í kringum leikverkið. Á móti koma æfingar um helgar. Við bætast fimm sýningar og er hefð fyrir því að fullt hús sé í Egilsbúð. „Helsta vandamálið er að sumir gleyma sér stundum, aðallega út af símunum,“ skýtur hún inn í.

Það er til nokkurs að vinna. Leiksýningarnar eru orðnar stærsta einstaka fjáröflunin fyrir ferðalag bekkjarins í lok skólaársins. En þau nefna líka að leiksýningin bæti andann í bekknum. „Í leikritinu þá eflist andinn í hópnum og þá verður ferðalagið skemmtilegra. Það eru alltaf að koma og fara krakkar í bekknum en núna erum við búin að vera mikið saman og kynnast betur,“ segir Valgeir.

Austurfrétt hitti þau skömmu fyrir frumsýninguna í gær. Þau sögðust stressuð en jafnframt spennt. „Ég á að syngja tvo einsöngva, þess vegna er ég svolítið stressuð“, segir Emilíana. En þau búast ekki við að söngvarnir úr Kardemommubænum, hvorki Ræningjavísurnar né Reiðivísur Soffíu frænku verði sungnar í rútunni í ferðalaginu. „Nei – alls ekki!“

Myndir: Jói Steini

Kardemommubaer Joisteini 1
Kardemommubaer Joisteini 2
Kardemommubaer Joisteini 3
Kardemommubaer Joisteini 4
Kardemommubaer Joisteini 5

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.