Nýtt tónverk eftir Charles Ross frumflutt í Skotlandi

Nýtt tónverk eftir Héraðsbúann dr. Charles Ross verður frumflutt á tónleikum í Aberdeenskíri í Skotlandi annað kvöld. Tónverkið er innblásið af Hallormsstaðaskóg.

Tónverk Charles kallast „Nýi skógurinn“ (The New Forest) og er innblásið af Hallormsstaðarskógi. Þar bjó hann áður, kenndi tónlist og vann í skóginum. Í frétt á vef Háskólans í Aberdeen segir frá því að í skóginum sé bæði fura og birti, líkt og skógunum í skosku hálöndunum.

Þrír nemendur og fyrrum kennarar við tónlistardeild skólans standa að tónleikunum. Aðalatriði dagskrárinnar eru ný verk þeirra sem fjalla um breytingar á náttúru svæðisins.

Verkið „On a Wing and A Prayer“ er samið af Joe Stollery, sem lauk nýverið doktorsnámi í tónsmíðum. Með honum er faðir hans, Pete, sem kenndi í skólanum í meira en þrjá áratugi.

Það er hins vegar fiðluleikarinn Katherine Wren sem er með Íslandstenginguna, en hún og Joe kynntust í háskólanum. Hún hefur spilað með Konunglegu skosku sinfóníuhljómsveitinni frá árinu 1998 en árið 2016 stofnaði hún Nordic Viola, hóp sem sérhæfir sig í tónlist frá Norður Atlantshafi. Charles tengist inn í þann hóp. Þau Katherine hafa spilað saman meðal annars í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði og Sláturhúsinu á Egilsstöðum.

Á heimasíðu Nordic Viola ritar Katherine að hún hafi beðið Charles um að skrifa nýtt verk innblásið af austfirskum skógum fyrir tónleikana á morgun. „Já – þið lesið rétt – það eru tré á Íslandi,“ skrifar hún og bætir við að hún njóti þess að dvelja innan um birkiskógana á Egilsstöðum.

Hún mærir þar tónsmíðahæfileika Charles og verkið sem hún lýsir sem fögru en líka krefjandi í flutningi.

Charles hefur áður samið verk sem tengjast skóginum, þeirra trúlega þekktast Keðjusagarblús sem fluttur var á Skógardeginum mikla árið 2015.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.