Óperusöngvarinn í fornleifauppgreftrinum

Kolbeinn Jón Ketilsson, tenórsöngvari, hefur sungið í nokkrum af þekktustu óperuhúsum heims á sínum ferli. Í sumar var hann meðal þeirra sem störfuðu að fornleifauppgreftrinum á Seyðisfirði og notaði meðal annars tækifærið til að halda tónleika.

Kolbeinn Jón er fæddur Ísfirðingur og vann meðal annars fyrir sér sem aðstoðarskipskokkur á menntaskólaárunum. Hann lærði síðan söng í Vínarborg og hefur síðan þá sungið í mörgum af þekktustu óperuhúsum Evrópu.

Í náminu í Vín kynntist hann norskri konu sinni. Árið 2016 ákváðu þau að setjast að í Drammen í Noregi, þá hafandi búið í þýskumælandi löndum í 28 ár ár. Eftir komuna til Noregs fór hann að rækta með sér áhugann á íslenskri sögu.

„Oft þegar maður býr lengi að heiman þá fær maður mikinn áhuga á heimaslóðunum. Drammen er ekki alls fjarri Rivedal í Dalsfjorden, þaðan sem fóstbræðurnir Ingólfur og Hjörleifur eiga að hafa komið.

Fyrir 3-4 árum keyrði ég þangað til að skoða staðinn og kanna hvernig hann kæmi saman við lýsingar. Sagan segir að Ingólfur hafi reist bautastein við sjávarmál þegar hann vissi að hann kæmi aldrei þangað aftur. Þeir voru útlægir úr heimahögunum eftir að hafa drepið syni Atla jarls og komu fyrst til Íslands, þá til Álftafjarðar hér á Austfjörðum, árið 870 til að kanna aðstæður. Þeir fóru síðan aftur út til að ganga frá sínum málum áður en þeir sigldu alfarnir til Íslands tveimur árum síðar.“

Stórlegt að vinna við uppgröftinn


Í Drammen býr líka Ragnheiður Traustadóttir sem stýrir uppgreftrinum á Seyðisfirði. Þau höfðu þekkst frá fyrri tíð og hún bauð söguáhugamanninum Kolbeini vinnu. „Ég var hérna mánuð í fyrra, síðan kom ég í mánuð nú í júní og síðast tíu daga í ágúst. Ég hef gengið í þau verk sem hefur þurft, hvort sem það er að grafa á vettvangi eða sía jarðveg.

Mér finnst þetta stórkostleg vinna. Ég er vanur að setja mig inn í hlutverk og þetta er er bara enn eitt hlutverkið sem ég reyni að setja mig inn í eftir bestu getu. Ég hef starfað innanhúss í 35 ár og finnst frábært að vera úti í beinni tengingu við íslenska náttúru og veðrið.“

Perlur í jörðu og tónum


Kolbeinn hefur þó alls ekki skilið listina alveg eftir því hann hélt tónleika í Egilsstaðakirkju í byrjun sumars. Hann hefur að undanförnu unnið með efnisskrá þar sem hann blandar saman sögunni og tónlistinni.

„Ég fékk styrk frá norska ríkinu (kulturrådet) til að halda tónleika þar sem ég rifja upp söguna og tenginguna milli Íslands og Noregs. Í Noregi fékk ég með mér dansara og leikara en á Egilsstöðum las Stefán Bogi Sveinsson ljóð af mikilli list.“

Kolbeinn Jón hélt síðan tónleika á Ísafirði eftir að hann yfirgaf Seyðisfjörð nú í haust. „Yfirskriftin var „Faldar perlur í orðum, tónum og gamalli jörð.“ Ég sýndi myndir af perlum sem hafa fundist á Seyðisfirði og reyni síðan að grafa upp söngva og tónverk sem eru minna þekkt, í raun gleymdar perlur.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.