Opna fyrir strandveiðar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, áformar að koma á nýjum flokki veiða, “strandveiðar”, þar sem heimilaðar verða frjálsar handfæraveiðar við ströndina.

Á ríkisstjórnarfundi þann 14. apríl sl. kynnti hann þau áform sín að fresta úthlutun byggðakvóta nú á þessu fiskveiðiári til að skapa svigrúm fyrir breytta stefnu til styrkingar og örvunar atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við þau meginsjónarmið sem felast í áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

skekta_vefur.jpg

 

Strandveiðarnar munu þó í meginatriðum takmarkast annars vegar af þeim heildarafla  sem ráðstafað er sérstaklega í þessu skyni og hins vegar af stærð báta. Gert er ráð fyrir að strandveiðum verði í fyrstu komið á til reynslu. Síðan verður metið hvernig til hafi tekist og framhald ákveðið.

Markmiðið er nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum verði gert mögulegt að stunda frjálsar veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Núverandi stjórn fiskveiða er gagnrýnd fyrir að erfitt sé fyrir nýja aðila að hefja veiðar í atvinnuskyni. Með strandveiðunum er opnað á takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki þurfa að vera handhafar veiðiheimilda. Þannig er til að mynda ungu og áhugasömu fólki auðveldað að afla sér reynslu og þekkingar um leið og sveigjaleiki er aukinn.

Nýja kerfið komi í stað byggðakvótans, en fyrirkomulag byggðakvóta er umdeilt og hefur valdið margvíslegum þrætumálum.

Til strandveiða verði ráðstafað þeim heimildum sem nú mynda byggðakvóta, þ.e.a.s. 6.127 tonn af óslægðum botnfiski auk 2.500 tonna viðbótar sem ráðherra ákveður. Þetta magn myndi stofn strandveiðanna, en fyrirmyndin er sótt í verklag við línuívilnun, sem nokkur reynsla er komin á og þykir hafa gengið vel. Öllum verður frjálst að stunda þessar veiðar sem uppfylla þau almennu skilyrði sem sett verða.

Alls eru, í dag, skráðir um 720 haffærir bátar undir 15 brúttótonnum. Um 650 þessara báta hafa stundað fiskveiðar í atvinnuskyni á síðastliðnum árum. Varanlegar aflaheimildir eru bundnar við 350 þeirra en til viðbótar eru um 140 bátar með varanlegar aflaheimildir en eru ekki með gilt haffæri sem oftast er þá innlagt. Til viðbótar er einhver fjöldi báta sem varanlegar aflaheimildir eru ekki bundnar við og ekki hafa gilt haffæri.

Meginforsendur

             Ráðstafað verði 8.627 tonnum af óslægðum botnfiski til strandveiða á yfirstandandi fiskveiðiári.

             Heimildum verði ekki úthlutað.

             Veiðarnar verða frjálsar, en almennar skorður takmarka og dreifa sókn.

             Tryggð verði góð umgengni um sjávarauðlindina og ábyrg nýting fiskistofna.

             Réttur til strandveiða komi í hlut hinna dreifðu sjávarbyggða um allt land.

             Byggðakvóti í núverandi mynd verði lagður niður.

             Bátar sem fái leyfi til strandveiða stundi ekki aðrar atvinnuveiðar á sama tímabili.

             Veiðarnar skapi ekki  varanlegan rétt til veiða og enginn réttur framseljanlegur.

 

Framkvæmd og fyrirkomulag

 

Heildarmagn  

i.             Heildarafli í þorski og öðrum tegundum fari ekki yfir það hámark sem ákveðið er.

Skipting landssvæða

i.             Landinu verði skipt í svæði. Við skiptingu heildarmagns á landsvæði verði höfð hliðsjón af skiptingu byggðakvótans.

 ii.            Engöngu verði heimilt að veita báti leyfi til strandveiða á því svæði sem hann á heimahöfn enda skal báturinn skráður innan landsvæðis og gerður þaðan út. Hagsmunir sveitarfélaga innan svæðis verði með þessu tryggðir.

iii.           Afla verði landað innan viðkomandi landsvæðis til vinnslu innanlands.

Sérstök frekari skilyrði

i.             Hámarksstærð báta  verði15 brúttótonn.

ii.            Bátur hafi veiðileyfi.

iii.           Allur afli verði vigtaður og skráður skv. gildandi reglum.

iv.           Meðferð afla skv. gildandi reglum (t.d. slæging/ísing).

Veiðistjórnun

i.             Eingöngu verði leyfilegt að nota handfæri.

ii.            Fjöldi handfærarúlla í hverjum bát verði takmarkaður.

iii.           Veiðitímabil hefjist 1. maí og endi 31. ágúst (frá júní reynsluárið).

iv.           Veiðitímabil skiptist í eins mánaðar tímabil til að dreifa veiðiálagi og auðvelda stjórnun veiðanna.

v.            Eingöngu verði heimilt að stunda veiðar á virkum dögum.

vi.           Hver dagróður verði að hámarki 12 klst.

vii.          Ákveðinn verði leyfilegur hámarksafli sem báti er heimilt að veiða á hverjum degi.

viii.         Ef á því er talin þörf verður mögulegt að setja hámark á fjölda báta innan svæðis til að tryggja sanngjarna hlutdeild vítt og breytt um landið.

ix.           Gert er ráð fyrir hóflegu leyfisgjaldi á reynsluári til að mæta eftirlits- og stjórnunarkostnaði.

Framkvæmd og eftirlit

i.             Fiskistofa hafi eftirlit og fari með aðra stjórnsýslulega framkvæmd strandveiðanna.

ii.            Brot á reglum/skilyrðum veiðanna varði skilyrðislausri  sviptingu réttar til strandveiða.

Niðurlag

 

Gert er ráð fyrir að fram komi frumarp til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þegar að afloknum kosningum til að koma á strandveiðum til reynslu, strax í sumar, að því gefnu að  frumvarpið verði að lögum. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir að byggðakvóta verði ekki úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári. Með þessari breytingu er komið til móts við margvíslega gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið og sniðnir af annmarkar sem komið hafa upp í meðferð og úthlutun byggðakvótans. Einnig er með þessu ætlað að stuðla að þróun í átt til vistvænni veiðihátta, greiða fyrir nýliðun, efla atvinnu og hleypa meira lífi í sjávarbyggðirnar.

    

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,

16. apríl 2009

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.