Regnbogagatan máluð í vorblíðunni
Seyðfirðingar tóku höndum saman í morgun og máluðu Norðurgötuna í regnbogalitunum. Fegrun götunnar, sem á sínum tíma átti að vera til skamms tíma, er orðið eitt helsta kennileiti staðarins.„Dagurinn í dag er fyrsti alvöru vordagurinn og við nýttum hann í þetta. Hér hefur verið hátt í 15 stiga hiti, sól og blíða í dag,“ segir Jónína Brá Árnadóttir, atvinnu- menningar- og íþróttafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar.
Gatan var upphaflega máluð í ágúst 2016 áður en hin hýra halarófa lagði leið sína um bæinn. „Ástand götunnar var orðið lélegt og það stóð til að laga hana. Á meðan það var ekki gert kom upp hugmyndin að mála hana í kringum hátíðina. Hún hefur verið svona síðan og er orðið eitt okkar helsta kennileyti.
Það sem átti að vera til skamms tíma varð langtímalausn sem okkur þykir vænt um. Að mála hana er orðinn okkar vorboði, eitt af fyrstu vorverkunum. Við höldum henni síðan við sumarið því það er töluverð umferð um hana.
Sveitarfélagið kaupir málningu en síðan er samtakamáttur íbúa og ferðalanga um að mála hana. Í dag voru um 15 manns sem komu og fóru,“ segir Jónína.
Heimsfaraldur covid-19 veirunnar hafði sín áhrif á málunina eins og flest annað. „Það var gætt vel að fjarlægðartakmörkunum, fólk hafði prik til að mæla bilið á milli sín.“
Mynd: Seyðisfjarðarkaupstaður/Rúnar Gunnarsson